136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

málefni fasteignaeigenda.

[13:48]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Sá vandi sem blasir við fasteignaeigendum nú um stundir er ábyggilega einn sá alvarlegasti sem nokkurn tíma hefur riðið yfir fasteignaeigendur á Íslandi. Íslendingar hafa tekið gjaldeyrislán í stórum stíl á undanförnum árum og núna þegar er greiðslubyrðin af þeim orðin svo geigvænleg að til vandræða horfir fyrir venjulegar fjölskyldur og heimili í landinu og vandséð að úr rætist á næstunni. Í þeirri vinnu sem unnin hefur verið á vegum félagsmálaráðherra hefur sérstaklega verið litið til þess hvar er hægt að leita leiða til að greiða úr greiðsluvanda heimilanna.

Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir og við samþykktum það með neyðarlögunum svokölluðu að hægt sé að færa stafla af íbúðalánum frá bönkum yfir til Íbúðalánasjóðs. Það kann að vera mjög mikilvæg aðgerð með það fyrir augum að leysa málið. Í Peningamálum Seðlabankans í morgun var m.a. vikið að fasteignamarkaðnum umfram það sem hæstv. ráðherra Jóhanna Sigurðardóttir lýsti áðan, um 40% rýrnun fasteigna í landinu sem er gífurlega há upphæð þegar litið er til þess að á sama tíma vaxa lánin margfalt.

Þar kom jafnframt fram nauðsyn þess að menn litu til þess að endurfjármagna lán fyrirtækja og heimila. Mér þykir mikilvægt að það hafi komið fram hjá Seðlabankanum. Það er auðvitað í samræmi við það sem menn hafa verið að tala um á hinum pólitíska vettvangi en um leið verðum við líka að gæta að því að það verður ekkert smávegis verkefni fyrir Íbúðalánasjóð að taka á móti þeim lánum sem þar eru á ferðinni. Það er flókið úrlausnarefni að átta sig á því á hvaða kjörum slík yfirfærsla ætti að verða og eins hvort Íbúðalánasjóður sé í stakk búinn til að gera slíka hluti. Ég tel að ríkisstjórnin muni vinna hörðum höndum að málinu.

Það sem er óvenjulegt við stöðuna núna er að þeir sem lenda í greiðsluerfiðleikum átta sig á því fyrir fram. Fólk leitar ekki hjálpar núna vegna vanskila sem það er þegar komið í heldur leitar það sér hjálpar fyrir fram. Því fólki þurfum við að hjálpa og allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hníga í þá átt.