136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

Búðarhálsvirkjun.

[15:30]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Þetta er möguleiki sem hefur verið reifaður. Ég hef sjálfur sagt það áður að ég tel æskilegt að lífeyrissjóðirnir komi að uppbyggingu orkuvinnslu í landinu og ég hef reyndar líka sagt það áður en núverandi hrina brast á að ég teldi það vel einnar messu virði að skoða hvort lífeyrissjóðirnir ættu ekki að eiga t.d. hluta í álverum vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að álver séu þrátt fyrir allt iðnaður sem muni skila góðum hagnaði í framtíðinni. Sömuleiðis hef ég velt upp þeim möguleika og er allt í lagi að segja frá honum hér að það ágæta fyrirtæki sem rekur álverið í Straumsvík og er skuldlaust og mjög öflugt velti fyrir sér þeim möguleika að koma að því fjármagna Búðarhálsvirkjun. Það fyndist mér vel vera meira en einnar messu virði að skoða. En ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá hefur þetta viðhorf hins frjálslynda jafnaðarmanns sums staðar og á óvæntum stöðum fallið í grýttan jarðveg.