136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

þorskeldi.

[16:05]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Það er kannski rétt að minna aðeins á að í því ástandi sem nú er í þjóðfélaginu verða þær raddir sem tala um hluti sem munu kosta verulega mikið fjármagn, þ.e. fjármagn til að byggja upp og þróa alvörufiskeldi eða réttara sagt þorskeldi í þessu tilfelli, dálítið hjáróma. Þess vegna finnst manni það svolítið sérstakt að þurfa að vera að ræða svona mál en auðvitað verðum við að halda áfram þó að við bíðum eftir því að fá alvörumál inn á borð til okkar.

Utandagskrárumræða um þorskeldi er auðvitað mjög af því góða. Ég vil minna á að það er fræðasetur í Sandgerði sem hefur staðið að þorskrannsóknum og rannsóknum á seiðum og einnig er seiðaeldisstöð í Grindavík sem hefur náð mjög góðum árangri þannig að það er ekki bara þörf á því að setja fræðasetur á Vestfjörðum um fiskeldi. Það eru ýmsir aðrir staðir til líka, t.d. var botndýrarannsóknastöðin í Sandgerði með tilraunaverkefni með seiði úr írska hafinu annars vegar og svo af Íslandsmiðum og það var mjög athyglisverð tilraun sem gerð var þar.

Áframeldi er líka einn möguleiki og partur af þessu fiskeldi, þorskeldi, en þar kemur aftur að því hverjir fá kvóta til þess að stunda það og það er verðugt verkefni að menn skoði það vegna þess að þar er verið að mismuna mönnum að mínu mati. Síðan eru ýmis önnur rannsóknaverkefni í sjávarútvegi sem þörf er á, m.a. það sem útgerðarmenn úr Grindavík vildu fara í til að rannsaka djúpkantinn sunnan við land. Það fengust ekki veiðiheimildir í það en þeir ætluðu að gera það í samstarfi við Háskóla Íslands, m.a. að gera DNA-rannsóknir og athuga stærð og aldur í djúpköntunum. Það hefur hvorki fengist fjármagn né leyfi til þess verkefnis.