136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[16:38]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er nú svo einkennandi fyrir margt samfylkingarfólk í ríkisstjórn — þótt innan um sé reyndar líka ágætis fólk — að leggja orð í belg (Gripið fram í: Einn og einn.) en gera ekkert með það. Þjónkunin við stefnu Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegsmálum, í kvótamálum, sem allir vita hver er — okkur þarf ekkert að koma á óvart þó að hæstv. sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins flytji svona mál. Það sem kemur á óvart er að Samfylkingin skuli liggja svona flöt fyrir því.

Ég leyfi mér að ítreka og spyrja, ef hv. þingmaður kemur upp í ræðu síðar: Á fólkið í sjávarbyggðunum sem treystir á að fá fiskinn í land og fá atvinnu við að vinna hann, á það engan rétt? Samkvæmt þessu er rétturinn allur hjá útgerðaraðilanum.

Hvað með fiskverndar- og fiskráðgjafarsjónarmiðin? Hér er ekki verið að flytja frumvarp nema það eigi bara að taka eina og eina trillu og hún fái heimild til þess að geyma 33% af aflaheimildum sínum milli ára. Þetta er bara flöt heimild á allan flotann eða þannig skil ég frumvarpið. Þá er þetta miklu meira og stærra mál en hv. þingmaður gerir skóna.

Þess vegna ítreka ég, frú forseti, að þetta er enn eitt dæmið um fiskveiðistjórnarkerfi sem komið er gjörsamlega að fótum fram gagnvart almenningsheill í landinu. Það er dapurlegt að Samfylkingin skuli ekki koma með neitt frumvarp inn sem styður þeirra skoðun á málinu (Forseti hringir.) ef hún er önnur, heldur beygir sig flöt fyrir (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokknum í sjávarútvegsmálum.