136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[17:47]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að draga neitt til baka vegna þess að það sem ég var að vekja athygli á var að hv. þingmenn Frjálslynda flokksins hafa á undanförnum missirum lagt fram tillögur sem fela í sér að auka beri þorskveiðar. Þeir hafa gert það á þeim forsendum að staða þorskstofnsins sé betri en fiskifræðingar hafa metið. Ég vek athygli á því að ef Frjálslyndi flokkurinn hefur á réttu að standa í þessum efnum getur það varla talist mikill áfellisdómur yfir þeirri fiskveiðistjórn og fiskveiðiráðgjöf sem reynt hefur verið að fylgja á undanförnum árum.

Ég er hins vegar alveg sammála hv. þingmanni um að auðvitað koma margir hlutir inn í myndina þegar við reynum að átta okkur á hvað veldur því að fiskstofnar stækka eða minnka. Það eru fjölmargir þættir eins og hv. þingmaður rakti réttilega í mjög málefnalegri ræðu sinni hérna áðan. Hv. þingmaður sagði hins vegar í öðru orðinu að við hefðum ekki náð svo miklum árangri með kvótakerfinu í uppbyggingu fiskstofna þó að hann hafi sjálfur margoft sagt að staða þorskstofnsins sé betri en fiskifræðingar hafi talið. Þess vegna held ég að við séum út af fyrir sig ekki mjög ósammála um þetta.

Ég dreg hins vegar mjög í efa að það sé rétt hjá hv. þingmanni að það að þetta frumvarp sé komið fram hafi skyndilega hækkað leiguverð á ýsu. Margir aðrir þættir hafa örugglega spilað inn í þetta og við vitum auðvitað ekki hvort þetta er varanleg þróun eður ei.

Hv. þingmaður sagði líka eitt nokkuð athyglisvert, að hann teldi að veiðiskyldan í kvótakerfinu ætti að vera sem mest. Þessu sjónarmiði er oft haldið á lofti, ég veit að þetta er t.d. sjónarmið Landssambands íslenskra útvegsmanna og sjómannasamtakanna sem vilja fara með veiðiskylduna úr 50% í 75%. Ég vilja spyrja hv. þingmann hver sé skoðun hans á því og jafnframt hver hann telji að áhrifin af því yrðu á leiguverðið og leiguframsalið og þar með á leigukvótaverðið í landinu.