136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[17:52]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í dag er veiðiskyldan 50% annað hvert ár, er það ekki svo? (GMJ: Jú.) Það er ekki há veiðiskylda fyrir utan að menn hafa fundið ýmsar leiðir til að fara fram hjá veiðiskyldunni, eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra veit.

Ég hef talið, hæstv. forseti, og hef aldrei farið dult með það, að það ætti að vera veiðiskylda á hverju ári og eðlilegt væri að veiðiskyldan um 50% væri á hverju fiskveiðiári en ekki annað hvert ár. Ég hef einnig talað fyrir því, og gerði það iðulega meðan ég var í forustu fyrir sjómannasamtök, að veiðiskyldan færi upp. Ég held að ég muni það rétt að sjómannasamtökin reistu þá kröfu um að veiðiskyldan færi í 75%. (Sjútv.- og landbrh.: LÍÚ er sammála.) Ég tel að sá réttur sem menn fá til þess að veiða afla úr sjó eigi að miðast við að menn afli tekna með því að veiða fiskinn og geri út á hann. Það á að vera megininntakið.

Þegar menn hafa búið til þann feril sem raun ber vitni — og ég vek athygli á að það eru útgerðarmenn sjálfir sem hafa búið þennan leigukvótaferil til. Það eru þeir sem hafa verðlagt óveiddan þorsk í sjó á 240 kr. hvernig sem mennirnir fara nú að því að gera út á það án þess að lenda í verulega skrýtnum málum. Hafi því einhver búið til þetta kerfi er það fyrst og fremst LÍÚ með leigukröfunni. Ég tel að það eigi að auka veiðiskylduna og hef bent á það mörgum sinnum. Ég gæti vel hugsað mér að veiðiskyldan færi yfir 70%, svo það sé alveg ljóst.

Hins vegar höfum við í Frjálslynda flokknum verið talsmenn þess að breyta þessu kerfi, innkalla þessar veiðiheimildir og setja hluta af (Forseti hringir.) veiðiheimildunum á uppboðsmarkað, enda hefur LÍÚ rutt brautina um hvernig fara á að því að leigja fisk.