136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

(Gripið fram í: Láttu vaða, Jón, láttu vaða.) Virðulegi forseti. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að það takmarkaða loftrýmiseftirlit sem NATO-þjóðir stunda hér hafi lítinn tilgang. Ástæðan er einföld. Þeir sem til þekkja telja enga hernaðarógn steðja að Íslandi í bráð eða lengd og ég er þess fullviss að sú verður niðurstaða svokallaðrar áhættumatsnefndar.

Fram hefur komið að nú sé í gangi endurskoðun í utanríkisráðuneytinu á verkefnum tengdum Varnarmálastofnun. Í ljósi breyttra aðstæðna og þeirrar ákvörðunar Breta að beita hryðjuverkalögum til að knésetja íslenskt efnahagslíf tel ég fulla ástæðu til að fresta komu þeirra hingað til lands, a.m.k. á meðan sú endurskoðun fer fram. Að mínu mati er óásættanlegt að þjóð sem beitir hryðjuverkalögum á Ísland komi hingað til að sinna verkefnum tengdum vörnum landsins. (Gripið fram í: Heyr.)

Það vakna einnig spurningar um það hvort við getum yfir höfuð verið í varnarbandalagi með slíkri þjóð. Við brottför varnarliðsins var endurnýjaður varnarsamningur við Bandaríkjamenn. Þeir töldu sig á þeim tíma ekki þurfa á íslenska ratsjárkerfinu að halda til að uppfylla þann samning. Í ljósi þess og þeirra aðstæðna sem nú eru komnar upp í íslensku samfélagi tel ég fulla ástæðu til að endurskoða einnig rekstur ratsjárkerfisins og þar með hvort þörf sé á rekstri Varnarmálastofnunar um þessi verkefni. Bent hefur verið á miklu ódýrari og einfaldari leiðir til reksturs kerfisins ef viðræður við NATO leiða til þess að vöktun þess sé nauðsyn.

Virðulegi forseti. Við þær aðstæður sem nú eru í okkar samfélagi verðum við að leita allra leiða til að hagræða og draga úr rekstri hins opinbera. Á þessum vettvangi er kjörin leið til þess.