136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[15:06]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er athyglisvert að hv. þm. Jón Magnússon, sem er í stjórnarandstöðu rétt eins og sú sem hér stendur, sat hjá við afgreiðslu neyðarlaganna eins og þingmenn Vinstri grænna og Frjálslyndra gerðu. Að hann sem hefur verið gagnrýninn á margt það sem hér hefur verið gert frá mánudeginum svarta, 6. október, skuli nú styðja ótrúlega mikil frávik frá grunnreglum í íslensku réttarfari og frávik frá gjaldþrotaskiptalögunum til þess að undanþiggja gömlu bankana, sem eru de facto gjaldþrota, frá því að fara í gjaldþrot. Hv. þingmaður styður, að því er virðist, að Fjármálaeftirlitinu sé heimilað að reka áfram gömlu bankana í allt að 24 mánuði eins og hv. viðskiptanefnd leggur hér til. Það undrar mig að hv. þm. Jón Magnússon skuli treysta stjórn og framkvæmdastjóra Fjármálaeftirlitsins betur en hefðbundnu ferli sem þekkt er og reynsla er af í landinu í ein hundrað ár.

Ég tók eftir því að hv. þingmaður nefndi ekki réttarfarsnefnd. Hann lýsti ekki stuðningi við þá kröfu hv. þm. Atla Gíslasonar að kalla réttarfarsnefnd saman þannig að hægt væri að fá formlegt álit nefndarinnar og skoðun á þessum gerningi því að ljóst er að leitað var til formanns nefndarinnar. Ekki náðist að kalla hana saman yfir helgina. Ég vil spyrja þingmanninn hvort hann styðji ekki í það minnsta þá tillögu um vinnulag á milli umræðna hér á þinginu.