136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[15:38]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður Árni Páll Árnason sagði hér áðan: Gjaldþrot er valkostur. Hv. þingmaður, þetta er rangt. Mönnum er einfaldlega skylt að gefa sig upp til gjaldþrotaskipta þegar þeir standa ekki undir skuldbindingum sínum. Það er ekkert valfrelsi í því. Það sem verið er að gera með þessu frumvarpi er að taka þá skyldu af gömlu bönkunum — sem hv. þingmaður nefndi því virðulega nafni „hræin“ hér áðan — að reka megi bankana áfram í allt að 24 mánuði enda þótt öllum megi ljóst vera að þeir eru de facto gjaldþrota og standa ekki undir skuldbindingum sínum.

Hv. þingmaður virtist mér rugla því algjörlega saman hverra hagsmuna er gætt annars vegar þegar verið er að setja fyrirtæki í gjaldþrot og hins vegar þegar verið er að setja fyrirtæki í greiðslustöðvun. Í greiðslustöðvun er verið að vonast til þess að hægt verði að reka fyrirtækið áfram og þá er greiðslustöðvunin gerð með hagsmuni eigandans — eða skuldaranna, Fjármálaeftirlits, skilanefnda ríkisins — að leiðarljósi. En þegar um gjaldþrotaskipti er að ræða er búið rekið til hagsmuna fyrir kröfuhafa, þá sem eiga eignir inni í viðkomandi fyrirtæki. Gjaldþrot er ekki valkostur. Gjaldþrot er skylda og verið er að taka það af hér.

Síðastliðinn fimmtudag mælti hæstv. viðskiptaráðherra fyrir því frumvarpi sem hér er til 2. umr. og gerði grein fyrir því að þar væri um tvenns konar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki að ræða vegna þrots bankanna og í kjölfar neyðarlaganna. Annars vegar yrði skiptastjóra þrotabús fjármálafyrirtækis heimilað að annast áfram tiltekna leyfisbundna starfsemi enda þótt Fjármálaeftirlitið væri búið að taka leyfið af fyrirtækinu. Hins vegar miðuðu breytingarnar, að sögn hæstv. ráðherra, að því að lengja fresti og auðvelda tilkynningu fyrir aðstoðarmann fyrirtækis sem veitt hefur verið greiðslustöðvun.

Þetta kynnti hæstv. ráðherra síðdegis á fimmtudaginn í síðustu viku. Þá var klukkan um hálffimm, ef ég man rétt. Rúmlega hálfum sólarhring síðar eða svo kom hv. viðskiptanefnd saman. Ég vil taka fram að allir sem þar töluðu tóku vel í málið. Gerðir voru eðlilega fyrirvarar við að málið bar brátt að. Hv. þm. Atli Gíslason lýsti fyrirvörum sem við höfum við þá lagaumgjörð sem nýju bönkunum er ætlað að starfa eftir og boðaði breytingartillögur sem hér hafa séð dagsins ljós á sérstöku þingskjali og snúa sérstaklega að launakjörum æðstu yfirmanna í þessum bönkum, að taka ofurlaunastefnuna af í eitt skipti fyrir öll og að bankarnir sem nú eru að fullu í eigu ríkissjóðs lúti stjórnsýslulögum og upplýsingalögum. Ég gæti auðvitað rakið í stuttu máli þau prinsipp sem við vinstri græn teljum að rekstur bankanna eigi að byggjast á. Þeir eiga fyrst og fremst að vera þjónustustofnanir við almenning í landinu en ekki dótakassi fyrir fjármálaspekúlanta og nýríka nonna í samfélaginu eins og verið hefur.

En ég var þar komin í máli mínu, herra forseti, að morguninn eftir framsögu hæstv. ráðherra kom hv. viðskiptanefnd saman. Þá lágu fyrir í löngu og ítarlegu máli breytingartillögur frá viðskiptaráðuneytinu, frá ráðuneyti hæstv. viðskiptaráðherra sem hafði ekki í einu orði getið þeirra um hálfum sólarhring fyrr.

Hér er allt á eina bókina lært. Ríkisstjórnin vinnur gjörsamlega án samráðs í þinginu. Ekki nóg með það. Hæstv. ráðherra sagði hér, og ég les orðrétt með leyfi forseta, í framsöguræðu sinni:

„Traust og gagnsæi eru þarna algjör lykilorð.“

Traust og gagnsæi eru þarna algjör lykilorð, sagði hæstv. ráðherra. Síðan hélt hann áfram máli sínu og hélt því vandlega leyndu að hann ætlaði sér að leggja fyrir viðskiptanefnd tillögur um allt annað, sem sagt að taka gjaldþrotaskiptalögin úr sambandi.

Nú hefur hv. viðskiptanefnd gert þessar tillögur að sínum og í nefndaráliti meiri hlutans segir á blaðsíðu 2 þegar búið er að rekja í löngu máli frestina og starfsleyfið sem framlengd eru, með leyfi forseta:

„Að lokum leggur meiri hlutinn til breytingu sem felur í sér nýtt ákvæði til bráðabirgða. Í því felst að þegar Fjármálaeftirlitið leitar eftir heimild til greiðslustöðvunar eða framlengingu greiðslustöðvunar fyrir fjármálafyrirtæki skuli slík heimild veitt án tillits til 4. eða 6. tölul. 2. mgr. 12. gr. laga um gjaldþrotaskipti og fleira.“

Sem sagt: Dómari má ekki samkvæmt þessu úrskurða fyrirtækin gjaldþrota. Hann bannar þeim að fara í greiðslustöðvun enda þótt ljóst sé að þau eru gjaldþrota.

Ég tel, herra forseti, að það sé algjörlega nauðsynlegt að fá upplýsingar um hverjar ástæðurnar eru fyrir svona „drastískri“ aðgerð. Af hverju er verið að gera þetta? Er það virkilega svo að það eigi að fara að reka hér sex banka á grunni þeirra þriggja sem fóru á hausinn í byrjun síðasta mánaðar? Á að reka gömlu bankana í allt að 24 mánuði í greiðslustöðvun og síðan þrjá nýja banka sem verið er að reyna að koma á lappirnar?

Það sem þarf að gera hér er að gera upp bú gömlu bankanna, því fyrr því betra. Það þarf að taka búin til skipta. Það þýðir ekki að allt færi hér á brunaútsölu, eins og hv. þm. Árni Páll Árnason sagði áðan, þvert á móti. Í gjaldþrotaskiptaferlinu er jafnræði kröfuhafa tryggt. Þar með er alveg útilokað að verið sé að þjónka undir stóra erlenda banka sem hafa greinilega bundist samtökum og koma í einum hóp með hirð lögfræðinga á morgun og hinn, stórir þýskir, breskir og amerískir bankar, kannski hollenskir líka. Það eru þeir sem setja skrúfstykki á hæstv. ráðherra viðskiptamála. Hann kiknar auðvitað í hnjánum og kippir gjaldþrotaskiptalögunum úr sambandi. Ég átta mig ekki á því hvað hér er í gangi. Það er þagað yfir þeim ástæðum sem hér liggja að baki. Það vantar algjörlega skýringar á því hvað menn eru að fara og það eru engin gögn, eins og hv. þm. Atli Gíslason hefur ítrekað bent á, sem liggja frammi um nauðsyn þess að gera þetta á þennan hátt.

Það er sama virðingarleysið fyrir þingi og þjóð og ríkisstjórnin hefur sýnt allt frá því að vandinn varð opinber í byrjun októbermánaðar. Öllu er haldið leyndu. Þetta er ríkisstjórn sem ekki treystir þingi og þjóð fyrir því hvað hún er að pukrast með.

Hv. þm. Árni Páll Árnason sagði áðan að mikilvægt væri að verja hagsmuni skattgreiðenda og það væri gert með þessu frumvarpi. Ég verð að segja alveg eins og er að ég treysti ekki Fjármálaeftirlitinu og skilanefndunum til þess að gæta hagsmuna skattgreiðenda í þessu máli. Ég vil helst ekki að þessir aðilar stjórni bönkunum, þrotabúum þeirra, deginum lengur. Við skulum ekki gleyma því að þeir hafa þegar sent hverju einasta mannsbarni á landinu 625 þús. kr. reikning. Hvers vegna? Til þess að hægt sé að uppfylla yfirlýsingar hæstv. viðskiptaráðherra um að greiða öllum allt út úr sjóðum enda þótt að sjóðirnir séu tómir og skuldabréfin og hlutabréfin sem í þeim eru séu algjörlega verðlaus. Það voru einfaldlega teknir peningar úr ríkissjóði og fluttir á milli. Hverjum á svo að senda reikninginn? Skattgreiðendum, hv. þm. Árni Páll Árnason.

Þetta eru þau verk sem búið er að vera að vinna frá því að skilanefndirnar tóku við undir forustu og eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Fyrst ég nefni eftirlit Fjármálaeftirlitsins verð ég að segja eins og er að það var nú ekki par gott eftirlitið sem Fjármálaeftirlitið hefur haft með starfsemi bankanna á undangengnum árum. Hér er verið að tala um að Fjármálaeftirlitið eigi áfram að hafa eftirlit með sjálfu sér í rekstri bankanna í allt að 24 mánuði. Það var ekki par gott eftirlitið þegar útrásarvíkingarnir voru byrjaðir að setja hér allt á hvolf. Og það var ekki par gott eftirlitið þegar verið var að heimila Icesave-reikningana og meira að segja að heimila nýja lánalínu í Hollandi eftir að ljóst mátti vera — Fjármálaeftirlitinu var það alla vegana ljóst, það er skjalfest — að Icesave-reikningarnir í Bretlandi voru að sliga þjóðarbúið. Nei, Fjármálaeftirlitið hélt sínu striki.

Þess vegna segi ég: Það verður að fást upp á borðið af hverju menn ætla að láta Fjármálaeftirlitið og skilanefndirnar halda þessu rugli áfram í allt að 24 mánuði í stað þess að fara í lögformlegt, viðurkennt ferli sem þekkt er um alla norðanverða Evrópu á grunni laga sem þekkt eru í norrænum rétti og á grunni reynslu sem gerir öllum kröfuhöfum, innlendum sem erlendum, stórum sem smáum, jafnt undir höfði.

Það væri gaman að fara nánar út í hvernig maður sér hina nýju banka og hið nýja umhverfi sem við þurfum að byggja upp þegar þessari hrinu lýkur. Eitt er víst, herra forseti, að við getum ekki byggt upp á sama grunni. Við verðum að fara að setja stopparann á þetta lið. Við verðum að fara að hætta þessu pukri. Við verðum að fara að hleypa fólki með heilbrigða, almenna skynsemi að þessu máli og lofta út úr herbergjunum.

Ég tel að það megi vel lengja fresti í gjaldþrotalögunum og það megi kveða á um ábyrgðir eins og hér er gert í þessu frumvarpi vegna þess hve gífurlega háar fjárhæðir er um að ræða. Ábyrgðarsjóðir endurskoðenda og lögmanna geta eðlilega ekki staðið fyrir því. En að öðru leyti lýsi ég fullri andstöðu við þetta frumvarp. Það á að loka gömlu bönkunum, það á að gera búin upp, það á að setja eignir og skuldir venjulegra Íslendinga, innlán og skuldir, inn í nýju bankana. Ríkið þarf að koma með hlutafé þar inn og við þurfum að geta hafið rekstur þeirra á réttum grunni. En gömlu bankana eigum við ekki að láta Fjármálaeftirlitið og skilanefndirnar vera að leika sér að í 24 mánuði í viðbót.