136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

kæra bankanna á hendur Íbúðalánasjóði.

109. mál
[14:10]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Kæru bankanna má rekja til þess að í ágúst 2004 komst Eftirlitsstofnun EFTA að þeirri niðurstöðu í kjölfar tilkynningar frá íslenskum stjórnvöldum að fyrirkomulag Íbúðalánasjóðs væri innan ramma 2. mgr. 59. gr. EES-samningsins og fæli því ekki í sér ólögmæta ríkisábyrgð.

Í kjölfarið kærðu samtök banka og verðbréfafyrirtækja þá niðurstöðu til EFTA-dómstólsins. Í apríl 2006 vísaði EFTA-dómstóllinn málinu aftur til ESA þar sem ESA hafði að mati dómstólsins ekki farið rétt með málsmeðferðarreglur með ákvörðun sinni frá ágúst 2004. Tók ESA því í kjölfarið í júní 2006 málið aftur upp til efnislegrar meðferðar og fór með það í svokallað formlegt rannsóknarferli. Því ferli er ekki lokið.

Í 62. gr. EES-samningsins kemur fram að Eftirlitsstofnun EFTA skuli, með leyfi forseta: Fylgjast stöðugt með öllum kerfum vegna ríkisaðstoðar sem eru til á yfirráðasvæðum samningsaðila, svo og öllum áætlunum um að veita slíka aðstoð eða breyta henni, með það í huga að þau samrýmist 61. gr.

Er þessi eftirlitsskylda ESA nánar tilgreind í bókun 26 við EES-samninginn. Litið er á fyrirkomulag Íbúðalánasjóðs sem ríkisaðstoðarkerfi vegna þeirrar ríkisaðstoðar sem falin er í fyrirkomulaginu, m.a. í formi ríkisábyrgðar og skattaívilnana Íbúðalánasjóðs. Af þeim sökum ber ESA, samanber 62. gr. EES-samningsins, að fylgjast með því að kerfið sé í samræmi við reglur samningsins um ríkisaðstoð. Er það óháð því hvort málið hefur komið til vitundar ESA í gegnum tilkynningu stjórnvalda, kæru þriðja aðila eða að eigin frumkvæði.

Með vísan til þessa er því ljóst að jafnvel þótt ríkið sem núverandi eigandi bankanna dragi til baka kæru frá 2004 þá ber ESA lögum samkvæmt að ljúka því sjálfsagða rannsóknarferli á fyrirkomulagi Íbúðalánasjóðs sem verið hefur í gangi hjá stofnuninni undanfarin ár.