136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

aukalán LÍN.

[10:40]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu er ástandið erfitt og það er ljóst að við Íslendingar munum ekki geta beðið þessa kreppu af okkur eða vonast til þess einhvern veginn að við getum sparað okkur í gegnum hana eins og t.d. Finnar reyndu í upphafi sinnar kreppu. Það þarf að grípa til aðgerða þegar í stað og ég veit að lánasjóðurinn greip til aðgerða í samvinnu við menntamálaráðuneyti og námsmannahreyfinguna. Það skiptir auðvitað miklu að námsmenn eigi greiðan aðgang að þessum lánum. Við finnum það bara á viðbrögðum námsmanna og sjáum það á netinu, á „Facebook“-síðunni þar sem hundruð námsmanna eru komin saman og hafa gríðarlegar áhyggjur af ástandinu, að hugsanlega þarf að skilgreina þessa neyð betur, í upplýsingum fyrir námsmenn svo þeir sæki um þessi lán. Ég held að það sé alveg gríðarlega mikilvægt nú í kreppunni að efla hið félagslega kerfi og ekki síst lánasjóðinn til þess að auðvelda fólki lífið. Ég held að ekki megi skilgreina þessa neyð of þröngt því það eru okkar hagsmunir að fólk geti lokið námi sínu erlendis við sæmilegar aðstæður og að lánasjóðurinn geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu, þ.e. að lána fólki til framfærslu.