136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

sjúkratryggingar.

67. mál
[12:32]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég fagna því að fá tækifæri til þess að ræða um kostnað við tannlækningar. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði áðan að þegar þrengir að í fjárhag heimilanna, og það hefur sýnt sig, þá sleppa menn því því miður að fara til læknis og leysa út lyf. Það er engin ástæða til þess að ætla að það verði öðruvísi núna í þeirri dýpstu efnahagskreppu sem menn hafa séð framan í hingað til.

Það liggja fyrir tölulegar niðurstöður og rannsóknir á því að fólk sem hefur lægri tekjur leitar síður til læknis og auðvitað sérstaklega til tannlækna. Það versta er að þetta bitnar á börnunum og stefnir tannheilbrigði þjóðarinnar til lengri tíma í voða.

Ég vil leyfa mér við þetta tækifæri að minna á fjölmörg frumvörp og tillögur þingmanna Vinstri grænna í gegnum árin um auknar fjárveitingar í þessu skyni, að ríkissjóður leggi fram aukið fé til þess að byggja upp tannheilsu þjóðarinnar og geri fólki sem er með lágar tekjur mögulegt að láta bæði gera við tennur í börnum sínum, verja þær fyrir fram og ekki síður í tannréttingum. En stefna okkar er og hefur verið sú að allur kostnaður við tannviðgerðir barna og ungmenna yngri en 20 ára og einnig kostnaður við tannlækningar aldraðra og öryrkja, verði borinn uppi með greiðslum úr sameiginlegum sjóðum. Það hefur verið og er stefna okkar.

Hér er gerð athyglisverð tillaga um að hækka aldursmarkið úr 18 árum í 25 ár og flytja það síðan upp um þrjú ár í senn þar til það er komið upp í 40 ár. Ég tel eðlilegt að það verði skoðað. Það má þó vera eins og hv. flutningsmaður nefndi áðan að þetta sé ekki rétti tíminn til þess að horfa til svo langs tíma. Við ættum kannski að einbeita okkur að yngri hluta þjóðarinnar og öldruðum og öryrkjum. Því það er auðvitað hlægilegt, bara beinlínis hlægilegt að tala um einhverja endurgreiðslu eða meðgreiðslu frá ríkinu í tannlækningum og tannréttingum barna. Þau dæmi sem hér voru nefnd sýna auðvitað hversu fráleitt það er, hversu fráleit gjaldskrá ráðherra er miðað við það sem menn þurfa að borga. Greiðsluþátttakan verður að hækka, hún verður að aukast.

Það er ekki hægt að skilja við þetta mál öðruvísi en að rifja upp þær umræður sem fóru fram þegar umdeilt sjúkratryggingafrumvarp ríkisstjórnarinnar varð að lögum. Það var mikið til umræðu síðastliðið vor og aftur nú í haust, þegar það var samþykkt á haustþinginu. Ein af meginforsendunum fyrir því að það þyrfti að stilla öllu upp í kaupendur og seljendur í heilbrigðisþjónustu var nefnt að ekki hefðu náðst samningar, m.a. um tannlækningar. Tannlækningar eru í íslenska heilbrigðiskerfinu einkarekin heilbrigðisþjónusta. Eins og staðan er í heilbrigðisþjónustu okkar núna þá eru tannlækningar bara einkavæddar. Þeir sem hafa til þess réttindi opna stofur og selja þjónustu sína og þeir sem þurfa á þjónustunni að halda og hafa efni á því að njóta hennar fara þangað og kaupa þjónustuna dýrum dómum.

Það er ekkert óalgengt að fólk sé að borga allt frá 10 þús. kr. og upp í 120 þús. Ég hef séð reikning fyrir tannréttingar og tanntöku hjá 17 ára dreng upp á 180 þús. kr. Þetta er náttúrlega með ólíkindum en þetta er það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill innleiða almennt í heilbrigðisþjónustu á Íslandi, þ.e. einkareksturinn. Við höfum þetta dæmi þar sem eru tannlækningar og það er svo sannarlega víti til að varast. Það er athyglisvert núna eftir að sjúkratryggingalögin hafa verið í gildi í rúman mánuð eða kannski tvo mánuði og aðdragandinn var nú eitthvað lengri, þessu var hent hér inn um síðustu áramót og allt kapp lagt á að vinna málið hratt að það var skipuð stjórn og ráðinn forstjóri áður en lögin voru tilbúin. (Gripið fram í.) Ekki forstjóri, fyrirgefið. Það er rétt sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir segir. Það var hætt við að ráða forstjórann heldur var það starfandi formaður stjórnarinnar sem leiddi verkefnið. Það er athyglisvert að engir samningar liggja enn þá fyrir við tannlækna. Ástandið er algjörlega óbreytt.

Þetta vil ég nefna hér og það er mikilvægt að við höfum söguna í huga. Við skulum ekki gleyma því að skólatannlækningarnar voru lagðar niður af samkeppnisástæðum. Skólarnir máttu ekki sinna tanneftirliti, tannvernd og tannlækningum vegna þess að það truflaði hinn frjálsa markað tannlæknanna í heilbrigðisþjónustu. Þetta voru mikil mistök og ég held að það þurfi að endurskoða þetta kerfi frá grunni. Það er klárt að fólk sparar við sig núna í kreppunni en það má ekki bitna frekar en orðið er á tannheilsu barna sem koma frá heimilum þar sem er lítið fé og kannski atvinnuleysi.

En ég fagna því að hv. heilbrigðisnefnd fær nú tækifæri til þess að ræða tannlækningar. Hér liggja líka fyrir frumvörp og tillögur frá Vinstri grænum um það eins og ég nefndi. Það er sannarlega kominn tími til þess að ræða stefnu stjórnvalda í þessum efnum. Því ég tel eins og hv. þingmaður nefndi áðan að þetta sé hlutur sem eigi ekki að spara í kreppu. Það er langt í frá.