136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

hlutverk og horfur sveitarfélaga í efnahagskreppu.

[16:34]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég sagði í fyrri ræðu minni að það væri uggur í sveitarstjórnarfólki um allt land og ekki verður uggurinn minni eftir svör hæstv. ráðherra í þessari umræðu, drottinn minn dýri. Engin svör var að finna í svari ráðherrans við þeim spurningum sem ég í allri auðmýkt leyfði mér að leggja fyrir hann í umræðunni um til hvaða ráðstafana stjórnvöld hygðust grípa til þess að tryggja að sveitarfélögin hafi bolmagn til að sinna lögbundnu verkefni sínu. Ekkert svar. Jafnframt spurði ég hvernig jöfnunarsjóði yrði gert kleift að styðja sérstaklega þau sveitarfélög sem hvað verst standa. Ekkert svar kom annað en óljós vísun í einhverjar heimildir sem jöfnunarsjóður kynni að hafa og ekkert um aukaframlagið upp á 1.400 millj. kr.

Ég leyfði mér að spyrja hvort ríkið mundi ábyrgjast eða vera bakhjarl sveitarfélaganna vegna væntanlegs hallareksturs og aukinnar skuldsetningar. Engin svör, ekki vikið að því einu orði. Ég spurði einnig hvort tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga yrði breytt til að auka hlutdeild sveitarfélaganna í skatttekjum eða þau fengju ríkari heimildir til tekjuöflunar. Þar komu í raun engin svör önnur en þau að vísað var í fyrirhugaða vinnu við endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga. Ég verð að segja að ég varð fyrir vonbrigðum með svör hæstv. samgönguráðherra í þessari umræðu.

Talað er um að sveitarfélögin verði eins og aðrir að hagræða hjá sér. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sagði í setningarræðu sinni á fjármálaráðstefnu í dag að mörg sveitarfélög hefðu þegar hagrætt til blóðs og lengra yrði ekki gengið í þeim efnum.

Ég held, virðulegi forseti, að það sé alveg ljóst að jafnvel þótt sum sveitarfélög geti tekið að einhverju leyti til í sínum ranni standa þau flest hver mjög höllum fæti. Skuldir þeirra fyrir efnahagskreppuna leiða til þess að þau munu eiga enn erfiðara með að mæta þeim áföllum sem þau verða fyrir en ríkissjóður.

Þess vegna er kallað eftir því (Forseti hringir.) að sveitarfélögin séu eitt af þeim verkefnum sem ríkið þarf að sinna og gefa góðan tíma við endurreisn efnahagslífsins sem hlýtur að blasa við og taka við hjá okkur öllum.