136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

Icesave-reikningar og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.

[15:23]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Sá misskilningur virðist ríkjandi hér að ekki sé ætlunin að ræða þetta veigamikla og mikilvæga mál á Alþingi. Að sjálfsögðu verður það gert og allir samningar sem kunna að verða gerðir um fjárskuldbindingar eru að sjálfsögðu gerðir með fyrirvara um samþykki Alþingis. Þetta eiga reyndir þingmenn að vita.

Síðar í dag verður útbýtt þingsályktunartillögu um samstarf Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar er birt í heilu lagi sem fylgiskjal sú viljayfirlýsing sem gengið hefur verið frá af Íslands hálfu gagnvart sjóðnum. Með þessari þingsályktunartillögu er farið fram á að þingið sjálft taki afstöðu til þess hvort það vill taka þátt í þessu samstarfi eða ekki, já eða nei. Það er tillaga ríkisstjórnarinnar að þingið fallist á að ganga inn í þetta samstarf á þeim forsendum sem búið er að undirbúa.

Svipaða málsmeðferð sé ég fyrir mér varðandi Icesave-málið. Auðvitað þarf að taka það fyrir í sölum Alþingis. Við ræddum þetta mál við formenn stjórnarandstöðuflokkanna, ég og hæstv. utanríkisráðherra, síðastliðinn föstudag og gerðum grein fyrir því hvernig málið stæði. Það sem síðan hefur gerst er á þeim nótum sem þá var kynnt. Við höfum ekki gengið frá neinum samningum um málið að svo stöddu, við höfum hins vegar gert samkomulag um að fara samningaleiðina í því frekar en aðrar leiðir sem hefðu í reynd einangrað Ísland, stefnt EES-samningnum í hættu og hugsanlega haft í för með sér miklu meira fjárhagstjón en það sem við erum að reyna að lágmarka með þessum aðgerðum sem þingið á eftir að fara betur yfir.

Forsendan fyrir því að við getum fengið eðlilegt verð fyrir eignir Landsbankans er að þær komist í íslenskar hendur. Forsendan fyrir því að við fáum lán frá gjaldeyrissjóðnum er samstarf á borð við þetta. Forsendan fyrir því að önnur ríki, innan og utan Evrópusambandsins, vilji taka þátt í lánafyrirgreiðslu við okkur er að við ljúkum þessu máli með viðunandi hætti. Þetta eru kostirnir sem við stöndum frammi fyrir. En auðvitað er það rétt að ákveðnum þvingunum hefur verið beitt í þessu máli, það er bara staða sem við þurfum að horfast í augu við.