136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

samkomulag við IMF.

[15:57]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það liggur þrátt fyrir allt fyrir að misvísandi yfirlýsingar hafa verið gefnar af hálfu ráðherra í ríkisstjórninni vegna þessarar vaxtahækkunar og það veit hæstv. fjármálaráðherra þó hann hafi ef til vill sagt það sem hann lýsir yfir hér, það kann að vera rétt. En skilaboð hafa verið misvísandi frá ráðherrum í ríkisstjórninni, þar hefur ekki verið talað einni röddu.

Það er ljóst að svörin eru ekki mjög skýr af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Veit hæstv. fjármálaráðherra hvaða efnahagslega bagga hann hefur bundið íslenskri þjóð með undirskrift sinni hér og þar um heiminn að undanförnu? Telur hann sig hafa umboð til að skuldsetja núverandi og komandi kynslóðir um hundruð og þúsundir milljarða? Stendur honum ef til vill á sama? Er kannski ekki orðið tímabært að taka sjálfblekunginn af hæstv. fjármálaráðherra? Hvað eiga þessir okurvextir, virðulegi forseti, að standa lengi og hversu mikið eiga þeir eftir að hækka enn? Þjóðin á kröfu á skýrum svörum ráðherrans í því efni.