136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[17:33]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að ég líti þetta mál mjög svipuðum augum og stjórnarmaður í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins sem heitir Ögmundur Jónasson. Ef menn ætla sér að fara í þann leiðangur að strika út hluta af skuldbindingum skuldara verða menn að svara því hver eigi að borga það. Hver á að borga það, virðulegur forseti?

Ef við lítum á almenning sem hóp, einstaklinga og heimili sem hóp, vitum við það út frá hagtölum að það er almenningur sem tapar á því í heildina tekið. Sumir einstaklingar kunna að hafa ávinning af slíku, aðrir munu hins vegar tapa. Í heildina, vegna þess að eignir heimilanna eru þrisvar sinnum meiri en skuldirnar, mundu heimilin tapa mestu á því að menn fiktuðu í verulegum mæli við verðtryggingarákvæði skuldabréfanna. Það eru þau sem borga og hver er ávinningurinn af því, virðulegi forseti?

Menn verða líka að hafa í huga að hver sá sem tekur lán verður að bera ábyrgð á því. Hefur einhver sem hefur tekið lán getað ákveðið eftir á að einhver annar eigi að borga fyrir sig? Það er bara ekki þannig, virðulegi forseti. En af því að ýmsir hlutir hafa gerst sem voru ófyrirséðir, eins og hrun bankanna, þykir sanngjarnt að reyna að bregðast við vanda sem leiðir af verðbólgunni sem er væntanleg og verðbólgunni sem hefur verið. Það hefur hæstv. félagsmálaráðherra kynnt sem framlag ríkisstjórnarinnar — mér finnst það að sumu leyti ekki fullnægjandi eins og ég rakti í ræðu minni um það frumvarp sem ég hef lagt til. En ég sé ekki í meginatriðum meiri sanngirni fólgna í því að færa eignir á milli einstaklinga í þjóðfélaginu í gegnum það (Forseti hringir.) að virða ekki ákvæði verðtryggingar.