136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[17:52]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ríkisstjórnin hafi á stefnuskrá sinni að draga úr stimpilgjöldum og ég hugsa að hv. þingmanni sé það kunnugt. Ekki held ég að auðvelt sé að draga úr tekjum ríkissjóðs við þær aðstæður sem nú eru uppi í þjóðfélaginu.

Hvað varðar stimpilgjaldafrumvarpið, sem er fyrir þinginu í dag, er það þannig að þegar menn eru í miklum greiðsluvanda, eins og við horfum nú fram á, skiptir gríðarlegu máli fyrir lántakendur að losna við stimpilgjöld af skilmálabreytingum. Við slíkar aðstæður er beinlínis ósanngjarnt að lántakendur þurfi að borga stimpilgjöld.

Aðstaðan sem við erum nú í er afskaplega óvenjuleg og ég vona svo sannarlega — og hugsa að ég tali fyrir munn allra hér inni — að við þurfum ekki að horfast aftur í augu við slíkar hremmingar í náinni framtíð. Holskeflan sem reið yfir kom mörgum heimilum í landinu verulega á óvart og því höfðu menn ekki gert neinar ráðstafanir til að draga úr skuldum sínum eða neitt slíkt þegar bankahrunið gekk yfir. Þess vegna er mjög mikilvægt að ríkisstjórnin beri hag þessa fólks fyrir brjósti í öllum aðgerðum sínum.

Alltaf má deila um hvort nóg sé gert og ég veit að mörg okkar hefðu viljað sjá meira sums staðar, þannig er það bara. En menn reyna að bregðast við aðstæðunum eins og best er og með þessu lagði ríkisstjórnin fram ákveðið útspil. Það er enginn sem segir að þetta séu endanlegar aðgerðir, við eigum eftir að sjá betur hvernig allt verkast og menn hafa talað um fleira sem gæti hjálpað í þessu. Ég skil það sjónarmið að alltaf megi gera betur og held að við eigum að hafa það í huga.

Til að svara spurningunni sem hv. þingmaður beindi til mín í upphafi þá kemur fram í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins að kostnaðurinn geti í mesta lagi orðið 13 milljarðar kr.