136. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[22:20]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson hefur gert grein fyrir nefndaráliti frá félags- og tryggingamálanefnd varðandi frumvarp það sem hér er á dagskrá um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga. Hann gerði jafnframt grein fyrir því að þrír fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna, undirritaður ásamt Helgu Sigrúnu Harðardóttur og Kristni H. Gunnarssyni, skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara sem lýtur m.a. að því að heildaraðgerðir í þágu heimilanna hafi ekki litið dagsins ljós og aðrar leiðir að sama marki hafi ekki verið kannaðar gaumgæfilega.

Ég vil í upphafi geta þess að við gagnrýndum það við 1. umr. málsins að frumvarpið var lagt fram hér síðdegis í dag, milli fjögur og fimm. Þá var mælt fyrir því og jafnframt óskað eftir því að um það gæti orðið góð samstaða að það yrði að lögum nú á þessum sama sólarhring. Við gagnrýndum það að enn einu sinni kemur hingað inn í sali Alþingis frumvarp frá ríkisstjórninni sem hefur verið til meðferðar á vegum ríkisstjórnarflokkanna, bæði í ráðuneytunum um nokkurra vikna skeið og í þingflokkum stjórnarflokkanna — þingmenn stjórnarflokkanna hafa haft ráðrúm til að fjalla um það en stjórnarandstöðunni er gert að taka það til umfjöllunar á örfáum klukkutímum og gera það að lögum.

Sú gagnrýni er óháð efni frumvarpsins og óháð efni annarra frumvarpa sem koma inn með þessum sama hætti. Þessi vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar og það er við slíkar aðstæður sem mistök gerast í lagasetningu.

Fróðlegt er að rifja það upp að árið 1995 þegar sett voru lög um greiðslujöfnun fasteignaveðlána, þau lög sem nú er verið að gera breytingar á — (Gripið fram í.) 1985, var umræða um það mál hér á hv. Alþingi. Þá flutti hæstv. félagsmálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, sem þá var þingmaður en ekki ráðherra, ræðu og sagði út af málsmeðferðinni á því frumvarpi, með leyfi forseta:

„Við erum á þessum síðustu vikum þingsins að sigla inn í hefðbundin vinnubrögð við þinglok, að Alþingi er í raun ekkert annað en stimpilstofnun fyrir frumvörp ríkisstjórnarinnar sem samin eru af embættismönnum og fá þar ítarlega skoðun og umfjöllun, þar sem embættismennirnir taka sér þann tíma sem þeir þurfa, en alþingismönnum, sem ábyrgð bera á lagasetningunni, er ætlaður skammur tími, kannski örfáir dagar, til skoðunar á málum, til að mynda þessu máli.“

Þetta voru orð hæstv. núverandi félagsmálaráðherra árið 1985 þegar (Gripið fram í.) þetta mál var til umfjöllunar. Ég dreg þetta fram hér til að benda á að þetta eru nákvæmlega þau vinnubrögð sem hæstv. félagsmálaráðherra ætlast til að við viðhöfum í þessu máli í dag og ef eitthvað er á heldur skemmri tími en hæstv. félagsmálaráðherra gafst árið 1985. (Gripið fram í.) Hún var þá þingmaður Alþýðuflokksins og vísar oft (Gripið fram í.) í tillögur hans.

Nei, virðulegur forseti, þetta er ekki til að auka virðingu Alþingis og ég geng út frá því sem vísu að ráðherrunum þyki ekki gaman að standa í vinnubrögðum af þessu tagi, að þeir hafi ekki sérstakan áhuga á því. Mér finnst ekkert — (Gripið fram í.) ég ætla að biðja hæstv. iðnaðarráðherra að hafa sig hljóðan á meðan þetta mál er til umfjöllunar.

Ég sagði strax í upphafi að þó að við áteljum vinnubrögðin hafi það ekkert með málið sjálft að gera, hvorki þetta mál né önnur sem koma inn með þessum hætti. Þetta er ekki til fyrirmyndar. Ráðherrar Samfylkingarinnar gagnrýndu margoft, þegar þeir voru í stjórnarandstöðu, vinnubrögð af þessu tagi og hægt er að draga fram ræður um það eins og ég hef þegar gert þar sem hæstv. félagsmálaráðherra á í hlut. (Iðnrh.: Dæmi frá 1985.) Ég ætla að biðja hæstv. forseta að þagga niður í iðnaðarráðherra meðan þessi umræða fer hér fram. (Gripið fram í.)

Víkjum aðeins að málinu sjálfu. Við 1. umr. sagði ég að flokkur minn mundi ekki leggjast fyrir fram gegn þessu máli nema síður væri. Hér væri á ferðinni mál sem gæti verið til hagsbóta fyrir fjölmarga en við mundum að sjálfsögðu áskilja okkur rétt til þess að fara betur yfir það í nefnd. Við höfum setið á nefndarfundi í nokkra klukkutíma og eins og fram kom í máli framsögumanns, formanns nefndarinnar, komu fjölmargir á fund hennar og tjáðu sig um einstök efni málsins og svöruðu fyrirspurnum.

Það kom líka fram að við skrifum þrjú undir þetta álit með fyrirvara. Það þýðir að við styðjum málið og munum greiða atkvæði með því við þessa afgreiðslu. Engu að síður höfum við fyrirvara sem m.a. lýtur að því að heildaraðgerðir í þágu heimilanna hafi ekki litið dagsins ljós og aðrar leiðir að sama marki hafi ekki verið kannaðar gaumgæfilega. Vil ég skýra þetta aðeins betur.

Í fyrsta lagi það sem lýtur að því að heildaraðgerðir í þágu heimilanna hafi ekki litið dagsins ljós: Það hefur komið fram í umfjöllun hv. þingnefndar að fleiri þingmál séu í vinnslu á vegum hæstv. félagsmálaráðherra er lúta að aðgerðum í þágu heimilanna. Talað hefur verið um þingmál sem snertir greiðsluaðlögun en við gagnrýnum að frumvarpið sem við afgreiðum hér er aðeins einn bútur af þessum heildarpakka. Við hefðum gjarnan talið mikilvægt að þessi heildaráætlun lægi fyrir þannig að menn sæju í hvaða samhengi þetta mál er allt og hvað annað verður sett, til að mynda úr ríkissjóði, í aðgerðir til að bæta hag fjölskyldna. Í þessu máli eru ekki fólgin nein sérstök framlög úr ríkissjóði til að koma til móts við heimilin. Það eina sem hér er talað um er að þetta getur skapað vissan lausafjárvanda hjá lánveitendum sem ríkissjóður og/eða Seðlabankinn eiga þá að standa undir. Í greinargerð með frumvarpinu er lagt á það mat að sá lausafjárvandi geti verið á bilinu 13–15 milljarðar á næsta ári en samt var upplýst af fulltrúa Íbúðalánasjóðs, sem er með um 40% af þessum lánum, að Íbúðalánasjóður mundi ekki þurfa á þessari fyrirgreiðslu að halda á næsta ári vegna þess að hann gæti með lausafjárstýringu hjá sér staðið undir þessum skuldbindingum. Þetta eru því miklu lægri upphæðir en þarna er um að ræða og ekkert til heimilanna sjálfra. Við höfum því þennan fyrirvara.

Að því er varðar aðrar leiðir að sama marki spurðist ég fyrir um það hjá nefndinni hvort hún hefði t.d. skoðað möguleika á því að auka vaxtabætur og/eða húsaleigubætur til að koma til móts við aukna greiðslubyrði þeirra sem eru með lágar tekjur og meðaltekjur þar sem þessar bætur eru tekjutengdar eins og kunnugt er. Upplýst var að þetta hefði verið skoðað að því er varðar vaxtabætur, ekki að því er varðar húsaleigubætur en nefndin sem hér var að vinna hefði talið að það væri allt of dýrt fyrir ríkið og að þar væri líka um mjög almenna aðgerð að ræða. Frekari skýringar komu ekki fram á því hve stórar upphæðir þetta hefðu verið enda hefði það væntanlega verið háð því hvaða hækkun á vaxtabótum hefði þá verið ákveðin og hvort tekjutengingunni hefði verið breytt eða eitthvað þess háttar. Ég sakna þess að þessi leið hafi ekki verið skoðuð og vonast til að það verði samt sem áður gert í næstu skrefum.

Í öðru lagi vildi ég vita hvort nefndin hefði skoðað möguleika á vaxtalækkun, hreinlegri vaxtalækkun. Fram kom að það hefði ekki verið skoðað. Ég undrast það að nefndin, sem starfar á vegum félagsmálaráðherra, hafi ekki skoðað þá leið að setja a.m.k. eitthvert þak á vexti ofan á verðtryggingu. Ég minni þá aftur á að árið 1985, á 107. löggjafarþingi, þegar málið um greiðslujöfnun fasteignaveðlána var til umfjöllunar, lagði núverandi hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, það til, í umræðum um það mál, að vextir af húsnæðislánum yrðu lækkaðir og yrðu aldrei hærri en 3% af húsnæðislánum. Þetta kom fram í málflutningi núverandi hæstv. félagsmálaráðherra á þeim tíma sem aðgerð í þessu efni. Ég undrast því að nefndin sem starfar nú á vegum þessa sama hæstv. ráðherra hafi ekki skoðað þennan þátt málsins, möguleika á því að grípa til aðgerða af þessu tagi. Er þá rétt að vísa til þess, sem reyndar kom fram í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar við 1. umr. málsins, að þingmenn úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hafa nú lagt fram frumvarp hér á Alþingi þess efnis að vextir ofan á verðtryggingu verði aldrei hærri en 2%.

Einnig var spurt um það hvort skoðaðir hefðu verið möguleikar á því að veita skattafslátt, þ.e. að misgengi vísitalnanna frá þeim tíma sem við erum að tala um hér verði endurgreitt í formi skattafsláttar. Það sagði talsmaður nefndarinnar að hefði ekki verið skoðað og þeim hefði ekki hugkvæmst að skoða það. Ég vísaði þá til þess að það var ein af þeim leiðum sem Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. félagsmálaráðherra, lagði til árið 1985 að yrði skoðuð í tengslum við greiðslujöfnun fasteignaveðlána. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi ekki látið það hvarfla að sér, núna þegar hún er í aðstöðu til þess, að einhver slík leið verði skoðuð, hvort þetta væri hagkvæmt fyrir fjölskyldurnar í landinu, hvernig hægt væri að útfæra það, hvað það mundi kosta og hvernig það mundi skila sér í buddu heimilanna. Hér eru því allmargar leiðir sem að okkar mati hefði mátt skoða en hefur ekki verið gert. Kannski kemur það til af því að allt er þetta gert í miklum flýti. Auðvitað er verið að bregðast við mjög miklum aðsteðjandi vanda sem kemur til á tiltölulega skömmum tíma. Eftir sem áður hefði ég gjarnan viljað heyra það í þessari umræðu frá hæstv. félagsmálaráðherra að leiðir af þeim toga sem hér hafa verið nefndar, og eru m.a. sóttar í smiðju til hæstv. ráðherra, verði skoðaðar í framhaldinu sem liður í frekari aðgerðum, einhvers konar heildaraðgerðum, í þágu heimilanna.

Ég ítreka það sem ég hef þegar sagt að við teljum að í þessum aðgerðum sé alls ekki verið að koma með beint fjármagn til þess að létta byrðar heimilanna. Hér er farin sú leið að gefa fjölskyldum eða heimilum kost á að fresta afborgunum þannig að þær komi fyrir aftan gildistíma núverandi láns. Það þýðir einfaldlega að hluti af afborgununum er í raun tekinn að láni, fluttur á sérstakan jöfnunarreikning og tekur að sjálfsögðu vexti samkvæmt skilmálum lánsins á þeim tíma. Þegar upp er staðið mun heildargreiðslubyrðin verða hærri hjá þeim sem velja þennan kost en ella.

Ég vil ekki gera lítið úr því að fyrir margar fjölskyldur verður þetta kærkomin leið til að draga úr greiðslubyrði í augnablikinu og er hún jákvæð sem slík fyrir þá sem telja sér þetta hagkvæmt. Það er ástæða þess að við stöndum að nefndarálitinu og munum styðja frumvarpið. Hins vegar er afskaplega þýðingarmikið að hafa það í huga í þessu samhengi að á þessum tíma er mikilvægast fyrir okkur að slá skjaldborg um heimilin í landinu. Það á ekki að líðast að neitt heimili fari í gjaldþrot vegna bankahrunsins, vegna aðstæðna sem heimilin bera enga ábyrgð á. Það þarf að tryggja og til þess að svo megi verða þarf ábyggilega víðtækari aðgerðir en þær sem felast í frumvarpinu sem við höfum til umræðu. Sagt var í nefndinni að frekari aðgerðir væru á prjónunum en við höfum því miður ekki séð þær. Vel kann að vera að þegar þær líta dagsins ljós og koma til umfjöllunar á Alþingi verði heildarmyndin skýr, ég vona það sannarlega, og einkum og sér í lagi það að við sláum skjaldborg um heimilin, að gripið verði til trúverðugra aðgerða til að koma til móts við þann vanda sem fjölmörg heimili í landinu munu mæta á næstu vikum og mánuðum.

Að öðru leyti, virðulegur forseti, vísa ég til þess sem kemur fram í nefndarálitinu og þess sem ég hef nú þegar sagt um þetta mál. Við styðjum frumvarpið en gerum það með fyrirvara sem ég tel að ég hafi gert ágæta grein fyrir. Við hefðum gjarnan viljað sjá frekari aðgerðir, heildstæðari pakka og beint framlag af hálfu ríkissjóðs til þess að létta byrðarnar, einkum og sér í lagi hjá þeim sem mest þurfa á því að halda, sem eru fjölskyldur með lágar tekjur og miðlungstekjur og mikla framfærslubyrði. Það gerist ekki með þessu máli en það breytir því ekki að þetta mál þjónar tilgangi sínum og kemur til móts við tiltekna hópa og það er í sjálfu sér jákvætt.