136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

einkavæðing í heilbrigðisþjónustu.

[10:48]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Nú skil ég hvers vegna Geir H. Haarde, hæstv. forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var svona óskaplega glaður í Valhöll á fyrstu vikunum eftir að ríkisstjórnin var mynduð. Hann var kominn í samstarf við hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson, varaformann Samfylkingarinnar, og talsmann einkareksturs og einkavæðingar í heilbrigðisþjónustunni.

Hann spyr hvers vegna Vinstri hreyfingin – grænt framboð sé andvíg einkarekstri ef hann minnkar kostnað og bætir þjónustuna. Málflutningur okkar hefur gengið út á það að einmitt hið gagnstæða gerist og höfum við óskað eftir því að fram fari fagleg og vönduð úttekt á einmitt þessu. Því hefur hv. þingmaður, og flokkur hans og Sjálfstæðisflokkurinn, einnig hafnað. Þetta var fyrsta þingmálið sem við fluttum á þessu kjörtímabili. (Gripið fram í.)

Hvers vegna er Samfylkingin og varaformaður hennar, einkavæðingarsinninn hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, andvígur því að fram fari fagleg úttekt á áhrifum einkavæðingar og einkareksturs í heilbrigðiskerfinu sem hann er svo ákafur talsmaður fyrir?