136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[11:21]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég óska hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórninni allri til hamingju með það neyðarlán sem nú hefur verið samþykkt. Það er þá búið að tryggja lágmarksöryggi í landinu og loksins hægt að tala íslensku um stjórnmálaástandið, efnahagsástandið og þar á meðal Seðlabanka Íslands.

Yfirstjórn Seðlabankans er rúin tiltrú og trausti þings og þjóðar. Þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi kalla eftir breytingum á yfirstjórn Seðlabankans. Meirihlutavilji er á Alþingi fyrir því að aðeins fagmenn komi að yfirstjórn Seðlabankans og nauðsynlegt sé að styrkja hans faglegu yfirstjórn. Þegar nú er fjallað um að fela Seðlabankanum þetta fjöregg sem við loksins höfum fengið hljótum við að kalla eftir þeim breytingum á yfirstjórn bankans og því hversu hratt hægt verði að vinna að þeim breytingum á vegum forsætisráðherra á næstu dögum, því að það hlýtur að haldast í hendur við þær breytingar sem gera þarf á Seðlabankanum og sú lánveiting sem hér er til umfjöllunar. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra líka að því vegna þeirrar staðreyndar að Seðlabankinn er tæknilega gjaldþrota. Meðal margra mistaka yfirstjórnar Seðlabankans er að hafa tapað a.m.k. 150 milljörðum kr. í viðskiptum með skuldabréf við bankana í landinu og það hlýtur að vera alger forsenda fyrir því að hægt sé að reisa Seðlabankann frá gjaldþroti og veita honum fé héðan frá Alþingi að það sé ekki sama yfirstjórn sem rekið hefur bankann í þrot og við veitum þá neyðaraðstoð sem bankinn þarf nú á að halda.