136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[11:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Hæstv. forsætisráðherra. Við þurfum ekki að deila um það að eigið fé Seðlabankans er uppurið. Hvort menn kjósa að kalla það gjaldþrot eða ekki er svo sem smekksatriði.

Þær aðgerðir sem nú þarf að fara í og hvort þær takast eða hvort við verðum aftur fyrir áfalli hvílir algerlega á trúverðugleika. Trúverðugleiki er forsenda alls þess sem nú á að gera. Hæstv. forsætisráðherra hlýtur að hafa heyrt þingmenn á borð við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, hv. formann þingflokks Samfylkingarinnar, hæstv. iðnaðarráðherra og fleiri og fleiri, formann Framsóknarflokksins nýkjörinn, forustumenn úr öllum flokkum, þingmenn úr öllum flokkum lýsa því yfir að það sé nauðsynlegt, vegna trúverðugleika Seðlabankans og þar með þeirra aðgerða sem við erum núna að fara í, að gerðar verði breytingar á yfirstjórn Seðlabankans og hann styrktur faglega. Spurningin á þess vegna rétt á sér héðan úr ræðustólnum, hæstv. forsætisráðherra, öndvert því sem þér segið vegna þess að málið hefur verið tekið upp af þingmönnum úr öllum flokkum á Alþingi, þar á meðal úr yðar eigin flokki, og af forustumönnum fjögurra af fimm stjórnmálaflokkum í landinu og fyrir Alþingi hafa flokkar með meiri hluta þingmanna á bak við sig allir lagt fram lagafrumvarp um að aðeins fagmenn skuli koma að yfirstjórn Seðlabankans. Eftir þá atburði sem urðu í þessari viku hljótum við að spyrja hvenær megi vænta viðbragða við þessu því að þótt trúmennska sé sannarlega dyggð má of mikið af öllu gera.