136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[11:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Við getum kallað það sem hér fer fram eftiráumræðu um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að gera tvennt stærst á undanförnum dögum, sækja um lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og hafa nú fengið það, og semja við Evrópusambandið sérstaklega fyrir hönd Breta og Hollendinga um mögulega gríðarlegar skuldbindingar íslenska þjóðarbúsins þar um.

Það er dálítið sérkennilegt að heyra hæstv. forsætisráðherra koma hér upp og miklast eiginlega af því hversu mikla virðingu ríkisstjórnin sýni nú þingræðinu með þessari eftiráumræðu hér. Það var ekki annað á honum að heyra en að við ættum að vera sérstaklega þakklát fyrir að Alþingi skyldi yfir höfuð fá að koma að málinu. Svipað tók hann til máls í morgunútvarpinu, að mér heyrðist.

Enn undarlegra er að heyra hæstv. forsætisráðherra tala eins og fyllilega hefði komið til álita að ríkisstjórnin gerði þetta allt saman án nokkurrar aðkomu Alþingis yfir höfuð og skjóta sér þar á bak við lánsheimildir úr frumvarpi frá því í vor upp á 500 milljarða, sem þegar er búið að nota umtalsverðan hlut af, þannig að eftir standa þá kannski 400 milljarðar eða svo. Í pakkanum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er verið að tala um tæpa 700 milljarða miðað við núverandi gengi og heildarverðmiðinn á Icesave-deilunni er um 600–640 milljarðar kr. Það er því auðvelt reikningsdæmi að sýna fram á að ríkisstjórnin er komin langt út fyrir allar heimildir sem hún hefur frá Alþingi auk þess sem ég tel orka mjög tvímælis að leggja að jöfnu þá afar skýrt afmörkuðu lánsheimild í vor sem átti eingöngu að nýta til lántöku til að byggja upp gjaldeyrisvaraforða, það er skilyrt lántökuheimild til þess. Hér eru menn að tala um allt aðra hluti, ráðstöfun fjármuna til annarra hluta, endurfjármögnun banka og annað í þeim dúr.

Ríkisstjórnin hefur sem sagt á síðustu nokkrum dögum ákveðið að skuldsetja íslenska þjóðarbúið sem nemur allt að 1.400 milljörðum kr. eða jafnvel rúmlega það. Hæstv. forsætisráðherra kallaði þetta leik að tölum af minni hálfu hér um daginn. Það er þá kannski gaman að vitna í fjármálaráðherra Finnlands sem nefnir einmitt í blaðaviðtali í dag (Gripið fram í.) — eða er það aðstoðarfjármálaráðherra Finnlands? Hann nefnir að heildarlántökur Íslands núna séu upp á 1.400 milljarða kr. Er sá maður líka að leika sér að tölum? Ég hef aldrei haldið því fram að þetta væru allt saman einsleitar fjárhæðir. Mér er alveg ljóst hvernig þær eru samansettar. Eitthvað af eignum kemur vonandi upp í Icesave-pakkann og vonandi eyðum við ekki öllu sem við tökum að hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og erlendum seðlabönkum. En heildarverðmiðinn á þessu er þessi, hæstv. forsætisráðherra. Það er undarlegt að menn skuli koma hér upp og telja það sérstakt fagnaðarefni eins og hv. þm. Helgi Hjörvar, óska mönnum til hamingju með þessa skuldsetningu íslenska þjóðarbúsins. Það er nú meiri hamingjan fyrir ófæddar kynslóðir Íslendinga, fyrir íslensku heimilin, fyrir okkur á komandi árum að hafa þessar gríðarlegu skuldir á herðunum. Ég undrast að menn skuli ræða það eins og sérstakt gleðiefni að svona skuli málum komið. Ja, litlu verður Vöggur feginn, verð ég nú að segja, ef það er orðið helsta tilefni til ánægju og hamingjuóska hér á stjórnarheimilinu og kærleiksheimilinu sem birtist okkur hérna áðan að menn fái erlend lán, menn geti bætt á sig meiri erlendum skuldum. Eins og það sé nú það sem íslenska þjóðarbúið vanti helst sem er fyrir skuldugasta þróaða hagkerfið í heiminum.

Skilmálarnir sem hér eru á ferðinni eru mjög alvarlegir. Eitt er lántakan sjálf og greiðslubyrðin af henni en annað eru skilmálarnir, annað er „prógrammið“ sem við erum að fara inn í. Hvað stendur þar upp úr? Jú, hækkun stýrivaxta, þegar fram komin 6 prósentustiga hækkun stýrivaxta og boðað er meira. Í hvaða átt er verið að halda? Er það af umhyggju fyrir skuldugum heimilum og íslensku atvinnulífi í erfiðleikum sem það er sett svona fram af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? (Gripið fram í.) Nei, það er vegna þess að „prógrammið“ gengur út á það að passa upp á peningana en fólkið í landinu og atvinnulífið í landinu má mæta afgangi.

Skilyrðin í ríkisfjármálum eru sömuleiðis mjög mikið áhyggjuefni. Er raunhæft að keyra ríkissjóð niður úr kannski hátt á annað hundrað milljarða halla, eins og allt stefnir í á næsta ári, og niður í núll á tveimur til þremur árum þar á eftir? Hvað þýðir það fyrir íslenska velferðarsamfélagið eða skattgreiðendur nema hvort tveggja sé?

Hvað með skilyrðin sem lúta að kjarasamningum? Það er ástæða til að gefa gaum að því að komið er inn á þá í þessu plaggi. Hver er hin hefðbundna hugmyndafræði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þegar kemur að kjarasamningum og samskiptum við verkalýðshreyfinguna? Samfylkingin ætti að vita eitthvað um það, hún þykist vera vel tengd inn í verkalýðshreyfinguna. (Gripið fram í.) Það vill að vísu svo undarlega til að Alþýðusamband Íslands er með í þessum leiðangri og sérstökum fagnaðarboðskap. En það er yfirleitt ekki svo hjá hinni alþjóðlegu verkalýðshreyfingu eða verkalýðshreyfingum sem hafa af eigin raun kynnst Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að menn fagni því sérstaklega að skilmálar sem tengist kjarasamningum séu inni í „prógramminu“.

Veruleikinn er sá að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ræður. Það kemur aftur og aftur fram í plagginu að það er hann sem ræður þrátt fyrir allt. Hér segir í 10. tölulið, sem er reyndar athyglisvert vegna umræðna í gær um fjármálaeftirlit og fyrirkomulag þess sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa nú sett í nefnd að skoða, að sameina aftur Fjármálaeftirlitið við Seðlabanka. Í 10. tölulið stendur í tengslum við endurskoðun á regluverki og eftirliti með bankastarfsemi:

„Við munum ræða ... sérhverja breytingu á áformum okkar í þessu efni við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.“

Já, bíddu nú við, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ræður.

Í 16. tölulið bannar samningurinn ríkinu frekari útgjöld vegna endurskipulagningar bankamála. Ég spyr þá: Bannar sem sagt Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn t.d. að gert sé upp með jafnræði gagnvart öðrum fjármálafyrirtækjum en yfirteknu bönkunum þegar kemur að peningamarkaðssjóðum? Er það það sem kemur í veg fyrir að þar fái jafnræðissjónarmið að ríkja?

Þarna segir:

„Í því skyni munum við hafa samráð við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins varðandi aðgerðir er leiða af sér frekari meiri háttar aukningu í kostnaði við endurskipulagningu bankanna o.s.frv.“

Í 22. tölulið biðja menn um samþykki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins:

„Meðan á þessu stendur biðjum við um ... samþykki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.“

Í 25. tölulið segir:

„Við munum eiga náið samráð við [Alþjóðagjaldeyris]sjóðinn í samræmi við stefnu sjóðsins.“

Samráð við sjóðinn í samræmi við stefnu sjóðsins. Stefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ræður.

Það er auðvitað fleira sem væntanlega er ættað úr þessari átt. Eru hér allir hlutir sagðir í væntanlegum samskiptum íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Eru hér kannski leyniskilmálar á bak við eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varð uppvís að hafa haft gagnvart Argentínu og kom fram í bandarískum fjölmiðlum 2001, þvingunarskilmálar sem hafði verið haldið leyndum bæði fyrir argentínsku þjóðinni og öðrum þangað til sjóðurinn neyddist til að viðurkenna tilvist þeirra eftir að þeir birtust í bandarískum blöðum?

Hvað þýða ársfjórðungslegar komur sendinefnda Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hingað, tengdar við ársfjórðungsleg þök, sem sett eru inn í áætlunina? Jú, er það ekki þannig að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kemur og hefur eftirlit með því að þessi ársfjórðungslegu þök séu virt? Hann ræður, það skyldi nú ekki vera?

Varðandi gengismálin verð ég að segja alveg eins og er að það er kannski hvað mestur hrollur í manni gagnvart því sem fram undan er þar. Nú er sagt að setja eigi krónuna á flot innan nokkurra daga og það stendur hér í „prógramminu“ að menn ætli að nota hluta af hinni erlendu lántöku, hluta af gjaldeyrisforðanum, til þess að reyna að hafa áhrif á gengi krónunnar. Boðað er að erlend lán, sem nú er verið að taka og munu hvíla á herðum þjóðarbúsins hér á komandi árum, verði jafnvel notuð í einhverja tilraun til þess að stýra gengi krónunnar.

Það er stórhættulegt. Hvað ef það mistekst og við missum tugi eða hundruð milljarða kr. út í árangurslausri tilraun til slíks? Þá er verr af stað farið en heima setið. Ég vara sérstaklega við þeim þætti málsins að menn fari í einhverju óðagoti að taka af gjaldeyrisvaraforðanum til einhverra óraunhæfra æfinga gagnvart gengi krónunnar. Ég vísa þar í umfjöllun margra hagfræðinga sem telja að slíkt sé stórhættulegt og augljóslega væri einn versti kosturinn, ein versta útkoman á þessu öllu sem við gætum lent í ef þar töpuðust miklir fjármunir og menn næðu samt ekki árangri.

Hvert er verkefnið? Jú, það á að reyna að styrkja krónuna og gengi hennar eftir að hún fellur kannski tímabundið, vonandi ekki mjög mikið, segja menn. Verið er að taka 700 milljarða kr. að láni erlendis til þess að reyna að koma íslensku krónunni á kjöl, er það ekki, hæstv. forsætisráðherra? Jú. Hver er þessi íslenska króna? Það er krónan sem Samfylkingin notar alla orku sína í að segja að sé ónýt um leið og hún stendur að því að skuldsetja þjóðarbúið til að reyna að koma henni á kjöl. Eru ekki svolitlar mótsetningar í þeim málflutningi? Annars vegar hamast Samfylkingin, og reyndar því miður fleiri, við að segja að íslenska krónan sé ónýt. Hins vegar ætlar hún að bera pólitíska ábyrgð á því að skuldsetja börnin okkar og barnabörnin áratugi inn í framtíðina til þess að koma þessari sömu krónu á kjöl. Er það ekki?

Samfylkingin gerir meira. Hún segir: Hér er ónýtur seðlabanki, hann nýtur einskis trausts. Hann á samt að fá verkefnið að koma krónunni á kjöl. Gott hjá Samfylkingunni, hún er aldeilis sjálfri sér samkvæm. Krónan er ónýt, Seðlabankinn trausti rúinn en samt skulum við taka 700 milljarða kr. að láni til að koma krónunni á kjöl og láta Seðlabankann sjá um verkefnið. Sem sagt, það er allt í boði Samfylkingarinnar, ónýt króna, ónýtur seðlabanki, 700 milljarðar í erlendum skuldum, fínt.

Þetta snýst um traust, það er hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar. En traust á hverju? Ekki bara á Seðlabanka sem vissulega er því rúinn, traust á ríkisstjórn, á Seðlabanka, á Fjármálaeftirliti og öllu því stoðkerfi sem þarf að halda utan um hagkerfið og gjaldmiðilinn. Það traust er allt farið. Það er nefnilega víðar en í Seðlabankanum sem þarf að skipta um mannskap. Það þarf ekki síður hjá ríkisstjórninni sem ber yfirábyrgð á þessu og auðvitað Fjármálaeftirlitinu og víðar í bænum.

Ég held að Samfylkingin, sitjandi eins og klessa í þessari ríkisstjórn, verði að fara að líta til þess hvaða ábyrgð hún axlar með því í fyrsta lagi að sitja í ríkisstjórninni ef hún er nú ónýt og samkomulagið eins og við sáum hér áðan. Í öðru lagi með því að bjóða upp á Davíð Oddsson í Seðlabankanum, því að hann starfar auðvitað í umboði ríkisstjórnarinnar. Í þriðja lagi með því að bera ábyrgð á Fjármálaeftirlitinu. Og í fjórða lagi með því að ætla að taka 700 milljarða kr. að láni til þess að reyna að koma ónýtri krónu — að sögn Samfylkingarinnar — á lappirnar. Það er glæsilegt plan.

Er ekki von að dálítill uggur sé í þjóðinni þegar áformin birtast henni svona fram sett af hálfu ríkisstjórnarinnar sem á að heita að stjórni landinu?

Ég held að það sem við þurfum fyrst og fremst á að halda sé að halda íslensku atvinnulífi gangandi og verja heimilin í landinu. Fyrr vil ég sjá erlend lán fara í það verkefni en að glatast kannski í mislukkaðri tilraun til þess að reyna að koma stöðugleika á krónu, á gjaldmiðil sem a.m.k. annar stjórnarflokkurinn, gott ef ekki hluti af hinum, talar stanslaust niður og segir að sé ónýt. Það er ekki boðlegt, það er ekki ábyrgt. Þannig er ekki hægt að vinna að hlutunum. Ríkisstjórn sem stendur frammi fyrir þjóðinni, eins og birtist hér skýrt í morgun, og er svona á sig komin á örlagatímum gagnvart einhverjum erfiðustu viðfangsefnum sem íslenskt þjóðarbú, íslenska lýðveldið, hefur staðið frammi fyrir í sögu sinni, er ekki vandanum vaxin. Hún á að biðjast lausnar. (Gripið fram í.) Það er dapurlegt að sjá Sjálfstæðisflokkinn svo illa á sig kominn, þann gamla flokk, að ef það er eitthvað í lífinu sem hann óttast eru það kosningar og kjósendur. Það er ekki hátt risið á slíku.

Auðvitað er ekkert annað að gera til að endurheimta traust fólks en að kjósa eins fljótt og aðstæður leyfa. Eða hvernig sjá menn fyrir sér að allt settið óbreytt, sömu andlitin, hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. viðskiptaráðherra, bankastjórn Seðlabankans, yfirmenn Fjármálaeftirlitsins, greiði úr okkar málum með óbreyttum andlitum sínum í samskiptum við aðra á næstu vikum, mánuðum og árum? Það mun ekki ganga. Hluti af endurreisninni er að koma nýjum mannskap í það verkefni að endurheimta traust og orðstír Íslands og stýra þeim björgunaraðgerðum sem þarf að ráðast í. (Forseti hringir.) Ég ber mikinn ugg í brjósti, virðulegur forseti, til þess sem fram undan er ef hér á allt að halda óbreytt áfram.