136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[12:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hægt að reikna heilmikið þegar þess er gætt hvaða lán við erum að taka. En við tölum um brúttó upphæðir en ekki nettó. Vonandi fáum við talsvert upp í þessa 1.400 milljarða úr eignum Landsbankans og þurfum ekki að draga á alla upphæðina sem við fáum aðgang að bæði frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og eins hjá öðrum Evrópuþjóðum.

Hv. þingmaður sagði að þeir vildu fá peningana sem bæru ábyrgð á því í hvaða stöðu við erum komin. Ég er alls ekki sammála því. Ég tel að fjölmargir í bönkunum beri mikla ábyrgð á því í hvaða stöðu við erum og gert er ráð fyrir, eins og ég las hérna sérstaklega upp held ég áðan, að sérstök skoðun og úttekt verði gerð á því og þeir sem taldir eru með einhverjum hætti hafa misnotað vald sitt eða borið ábyrgð á því hvernig staðan er nú verði ekki í bankakerfi okkar að minnsta kosti næstu þrjú árin, samkvæmt þessu plaggi. (GMJ: Ætlarðu þá að reka seðlabankastjórann?) (Forseti hringir.) Einnig verða aðrar leiðir farnar, sérstök nefnd og sérstakur saksóknari verða skipuð til að skoða þessi mál.