136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[12:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er þykk og tilkomumikil mappa sem hv. þingmaður bar upp í pontu sem vitnisburð um þingmál Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um stöðugleika í efnahagsmálum. En eitt eru orð og annað eru athafnir. Ég held að mappan, eins ágæt og hún eflaust er og eins margt og þar má eflaust skoða frekar, komi að takmörkuðu gagni við þær aðstæður sem við erum í núna. Við getum öll borið hér upp í pontuna hugmyndir um hvernig við teljum að hafi átt að standa að málum á undanförnum árum. Það gæti ég líka gert.

Ég get vitnað til þess sem ég tel reyndar að hefði verið mikilvægt og hefur margsinnis komið fram hjá Samfylkingunni að við værum með annan gjaldmiðil en við erum með núna. Við værum með evru. Við værum með Evrópusambandsaðild. Það er auðvitað skoðun okkar að það hefði hjálpað okkur mikið við aðstæðurnar sem núna eru.

Það breytir ekki því að við erum núna í mikilli kreppu. Við erum í erfiðum dansi og þurfum að takast á við hann með öllum tiltækum ráðum. Það þýðir ekki að vitna bara til þess sem við hefðum svo gjarnan viljað gera hefðum við ráðið fyrir einhverjum árum síðan. Við þurfum að grípa til aðgerða til að verja heimilin og aðstoða fyrirtækin í landinu. Til að koma upp bankastarfsemi í landinu og setja stoðir undir gjaldmiðilinn. Þetta eru erfiðar aðgerðir fyrir stjórnvöld að grípa til og mikil ábyrgð fylgir þeim. Ekki þýðir að vísa í hugmyndir um hvernig hlutunum hefði betur verið fyrirkomið hefðum við ráðið. Núna erum við í þessari stöðu og við verðum að vinna okkur í gegnum hana og út úr henni. Engar tillögur hafa heyrst frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði um hvernig það væri best gert.