136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[14:02]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi vaxtakjör á lánum frá öðrum en sjóðnum þá er ekki hægt að upplýsa um það vegna þess að það liggur ekki fyrir. Ég hef ekki þær upplýsingar og það á eftir að ganga frá því við viðkomandi lönd. Færeyingarnir hafa sagt okkur að þeir muni ekki krefjast hærri vaxta en þeirra sem þeir greiða sjálfir af sínum lántökum.

Varðandi fundahöld um ástand mála á þessu ári þá hefur komið fram af hálfu hæstv. utanríkisráðherra, og ég staðfesti það, að við áttum marga fundi með Seðlabankanum, ekki bara þennan í febrúar. Við höfum verið að funda með þeim, eins og er okkar skylda, um þessi mál reglulega allt þetta ár og að sjálfsögðu einnig, bæði formlega og óformlega, með viðskiptabönkunum, Fjármálaeftirlitinu og öðrum sem þarna koma við sögu. Það er ekkert launungarmál að bankastjóri Seðlabankans hefur í ræðu og riti gagnrýnt og látið í ljós áhyggjur sínar af því hvernig hin svokallaða útrás væri að þróast og allri þeirri lánsfjármögnun sem henni fylgdi og fékk sums staðar bágt fyrir eins og margir kannski muna.

Ég tel hins vegar ekki að hægt sé að saka stjórnvöld um að hafa sofið á verðinum. Bankarnir voru innan almennra reglna. Ég tel heldur ekki að það sé hægt að beina sérstakri sök að Fjármálaeftirlitinu og enn síður að Seðlabankanum. Ef það á að leita einhverra sérstakra sökudólga verður fyrst að líta í rann bankanna sjálfra, hvað þar var á ferðinni. Ég held að það hafi verið meginboðskapurinn í ræðu seðlabankastjórans í fyrradag og akkúrat það sem stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins sagði við fólk í Kastljósinu í gær og ég held að hann hafi haft hárrétt fyrir sér.