136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[17:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi ráðstöfun þess gjaldeyrisforða sem fæst vegna þeirrar lánafyrirgreiðslu sem hér er til umræðu liggur auðvitað ekki fyrir, hvorki af hálfu ríkisstjórnarinnar né annarra, nákvæmlega hvernig þetta fé verði notað og það liggur ekki fyrir hvort það verði notað að hluta til eða meira leyti. Ég hef það á tilfinningunni og það er skoðun mín að það verði að fara afar gætilega við að nota þennan forða. Það er mikilvægt að hann sé til staðar en það verður að fara mjög gætilega í að nota hann.

Eins og ég sagði í ræðu minni áðan liggur fyrir að það er ekki ætlunin að nota þennan gjaldeyrisforða til að verja vonlausa stöðu krónunnar og tel ég þannig að ég svari spurningunni í lok ræðu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur að ekki ætti að nota forðann til að greiða út eigendum jöklabréfanna eins og það var orðað. Ég tel að fara verði mjög varlega í að nota þennan forða um leið og ég tel mikilvægt að hann sé fyrir hendi.

Varðandi þessa ráðstöfun að öðru leyti og þá spurningu hversu langt ríkisstjórnin eða stjórnarflokkarnir séu tilbúnir til að ganga til að nýta þennan forða þá held ég að við getum ekki svarað því fyrir fram og ég held að við verðum að fara varlega í öllum yfirlýsingum um slíkt vegna þess að allar nákvæmar yfirlýsingar og upplýsingar um það geta haft áhrif á markaðinn, geta haft áhrif á spekúlanta sem hugsanlega vilja hagnast á krónunni og aðgerðum ríkisstjórnarinnar eða Seðlabankans til þess að hafa áhrif á gengið. Þess vegna held ég að það sé alveg ómögulegt að segja fyrir fram í smáatriðum hvernig menn ætla að nýta þennan forða.