136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[19:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Það hefði kannski verið skýrara að fá að gera grein fyrir því, hv. þingmaður, hvernig þessari skiptingu er háttað. Þegar bönkunum er skipt upp í tvennt og til verða nýi bankinn og gamli bankinn eru bæði eignir og skuldir teknar yfir — það fer yfir í nýja bankann og á að vega hvort upp á móti öðru. Því til viðbótar þarf ríkissjóður að bæta inn í eigin fé til þess að bankinn sé rekstrarhæfur. Aðrar eignir og aðrar skuldbindingar eru þá eftir í gamla bankanum. Þetta er þá hluti af því að láta þessar eignir ganga á móti skuldbindingum eftir því sem þær duga til.

Hluti af skuldunum verður þá eftir í nýju bönkunum en á móti koma samsvarandi eignir og þar af leiðandi ætti ekki að þurfa að hafa áhyggjur af þeim hluta. Nýju bankarnir eiga að geta staðið undir þeim skuldbindingum vegna þeirra eigna sem með þeim voru fluttar. Uppgjörshlutinn verður þá raunverulega í gamla bankanum og við eigum eftir að sjá hversu vel þeir hlutir duga til að standa fyrir þeim skuldbindingum. En í hvorugu tilfellinu fellur þetta sem skuldbinding á ríkissjóð.