136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

bankamál og skilin milli eldri banka og hinna nýju.

[11:20]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur varpað spurningum til hæstv. viðskiptaráðherra um stöðu bankanna, sérstaklega þeirra nýju, og skil við þá gömlu. Komið hefur fram að þau skil eru ekki enn þá orðin hrein og ég tel skipta miklu máli að settur sé veggur þar á milli strax til að skapa trúverðugleika í kringum nýju bankana sem brýn nauðsyn ber til að gera.

Ég vil jafnframt gjarnan vekja athygli á stöðu sparisjóðanna sem eru mjög mikilvægur hluti af bankakerfi okkar því að sparisjóðirnir hafa haldið gjaldeyrisviðskiptum við útlönd opnum. Í neyðarlögunum er lögð áhersla á að hjálpa eigi sparisjóðunum til að komast lifandi í gegnum bankahrunið. Þar er m.a. heimild til fjármálaráðherra að kaupa stofnfé sem nemur 20% af eigin fé sparisjóðanna, sömuleiðis að kaupa af þeim íbúðarlánabréf o.fl. Ekkert af þeim atriðum hefur komist til framkvæmda og er allt óljóst um hvernig heimildinni verður beitt. Ég vil spyrja viðskiptaráðherra: Hvað er að gerast í þessum efnum?

Sömuleiðis er í efnahagsreikningi viðskiptabankanna gert ráð fyrir töluvert miklum afskriftum sem ríkið hefur þó komið að. Munu sparisjóðirnir njóta sömu fyrirgreiðslu hvað það varðar? Klukkan tifar á sparisjóðina og mér er kunnugt um að Fjármálaeftirlitið hefur gefið nokkurra daga frest til að skila umbeðnum upplýsingum um stöðuna. Ég krefst þess að viðskiptaráðherra svari því hvað er ætlast til með sparisjóðina. Sparisjóðirnir eru gríðarlega mikilvægir þættir í okkar fjármálaþjónustu og ef þeir verða færðir til síns félagslega forms eiga þeir gríðarlega miklu hlutverki að gegna. Sparisjóðirnir eru í uppnámi, (Forseti hringir.) þeir eru auðvitað misjafnlega settir. Hæstv. viðskiptaráðherra skuldar (Forseti hringir.) svör hvað sparisjóðina varðar.