136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

bankamál og skilin milli eldri banka og hinna nýju.

[11:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í ræðu hæstv. viðskiptaráðherra áðan stóðu menn frammi fyrir alveg einstöku, óvenjulegu og hörmulegu verkefni í byrjun október. Bankakerfið hafði hrunið, 90% af íslenska bankakerfinu hafði hrunið, og grípa þurfti til mjög skjótra aðgerða til að koma því í starfhæft ástand að svo miklu leyti sem unnt var.

Eins og fram kom þurfti að tryggja lágmarksbankastarfsemi og það þurfti að tryggja að greiðslukerfi virkuðu. Ég tek undir með viðskiptaráðherra, ég held að vel hafi til tekist miðað við þær erfiðu aðstæður sem þá voru uppi. Það ferli sem hófst þá veldur því að við búum við ákveðið bráðabirgðaástand á bankamarkaði eins og er. Ég held að öllum sé ljóst að sú skipan mála sem nú er fyrir hendi verður ekki varanleg. Þess vegna þurfum við að velta fyrir okkur hvaða meginsjónarmið það eru sem við viljum að séu viðhöfð þegar mótað er til framtíðar hvernig byggja á fjármálakerfið upp.

Þar þurfum við fyrst og fremst að hugsa um þrjá þætti: Við þurfum að hugsa um hagsmuni íslenskra skattgreiðenda, almennings í landinu, sem augljóslega þarf að leggja mikið af mörkum til að koma bankakerfinu aftur á flot. Við þurfum í því sambandi, eins og nefnt hefur verið, að tryggja að eins mikið fáist fyrir eignir gömlu bankanna og unnt er. Í annan stað þurfum við að tryggja hagsmuni landsmanna sem viðskiptavina, bæði heimila og fyrirtækja, og þar koma samkeppnissjónarmið mjög sterkt inn. Í þriðja lagi þarf eins og jafnan að gæta hagsmuna starfsmanna. En það eru hagsmunir okkar allra sem skattgreiðenda og sem viðskiptavina (Forseti hringir.) sem hljóta að vera í fyrirrúmi þegar við mótum nýtt bankakerfi.