136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[15:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Jóni Magnússyni að í umræðum af þessu tagi ber að fara af mikilli gætni og enginn er sekur fyrr en sök er sönnuð. Það er algjör grundvallarregla enda hygg ég að hv. þingmaður hafi ekki getað fundið þess neinn stað í ræðu minni að ég hafi haldið öðru fram, hvorki almennt né varðandi einstök mál eða einstök brot.

Við horfum hins vegar fram á það að fjármálakerfi landsins hefur hrunið og hætta er á því að í því ferli og í þeim atgangi öllum sem því fylgir hafi verið framin einhver brot. Það segir reynslan okkur. Reynslan segir okkur að þegar svona atvik eiga sér stað eða atburðarás þá er fyrir hendi hætta á að brot hafi verið framin og það gefur okkur tilefni til þess að grípa til sérstakra ráðstafana til þess að mæta hugsanlega — þannig að ég undirstriki það — hugsanlega mun meiri málafjölda en við eigum að venjast í sambandi við efnahagsstarfsemi og atvinnulíf. Auðvitað vitum við ekki neitt með vissu fyrr en búið er að fara yfir málin, rannsaka og skoða betur. En það er góð ástæða til þess að ætla að því miður muni verða töluverður málafjöldi upp úr rannsókn af þessu tagi. Segi ég þetta þó að ég búi ekki yfir neinum öðrum upplýsingum eða vitneskju um þessi mál en hv. þm. Jón Magnússon.

Varðandi uppljóstraraákvæðið finnst mér, eins og ég sagði í ræðu minni, vel koma til greina að hafa almennt ákvæði af þessu tagi í lögum. Ég tel hins vegar að áður en við förum að skoða það eigum við að klára þetta mál og meta reynsluna af því.