136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[15:09]
Horfa

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessar umræður um frumvarpið. Meðal þess sem fyrir mér vakti þegar ég ákvað að flytja þetta sérstaka frumvarp var einmitt að fá umræður um það í þinginu hvernig menn litu á þetta mál og þennan þátt málsins sem fellur að saksókn og rannsókn, sérstaklega rannsókn og saksókn í þessari röð, þannig að ég tel að það hafi verið hluti af málatilbúnaði mínum að kalla eftir umræðum eins og hafa hér farið fram og vil ég þakka þingmönnum fyrir framlag þeirra til þess að skýra hvað hér er um að ræða og fara yfir þau mál sem ég ætla nú að reifa sérstaklega og var beint til mín.

Auðvitað var það álitaefni hvort flytja ætti frumvarp af þessu tagi eða að fara með þetta inn í ramma nýrra sakamálalaga, sem taka að vísu ekki gildi fyrr en 1. janúar næstkomandi þannig að það hefði þurft að bíða (Gripið fram í.) eitthvað eftir að fá því framfylgt samkvæmt þeim lögum að koma á sérstakri saksókn í þessu tilviki. Niðurstaðan varð sem sagt sú að fara þá leið sem hér er farin. En ég skil vel sjónarmið hv. þm. Jóns Magnússonar varðandi formsatriði í málinu. Ég tel hins vegar að þetta sé besta leiðin og skynsamlegasta leiðin miðað við þá stöðu sem uppi er. Því til stuðnings vísa ég meðal annars til bréfs ríkissaksóknara sem er birt sem fylgiskjal með frumvarpinu og dagsett 6. nóvember síðastliðinn. Leyfi ég mér að vitna til þess, með leyfi virðulegs forseta:

„Eins og fram kemur í upphafi bréfs míns var vinnu ríkissaksóknara á þessu stigi markaður þröngur tímarammi, ...“ — þ.e. það starf sem unnið var undir forustu ríkissaksóknara með Boga Nilssyni. — „Ástæðan var, eins og fram hefur komið, að fyrirhugað var að setja þegar í stað á stofn sérstakt embætti til að sjá um rannsókn og eftir atvikum saksókn þessara mála. Þegar þetta embætti væri komið á laggirnar tæki það yfir alla þætti málsins. Ríkissaksóknari tekur undir að þörf sé á að stofna embættið við slíkar aðstæður sem nú eru uppi og nauðsyn þess að það taki sem fyrst til starfa.“

Það er því enginn ágreiningur um þetta meðal þeirra sem fara með ákæruvaldið og liggur fyrir skýrt bréf ríkissaksóknara því til stuðnings sem nefndin getur að sjálfsögðu fengið staðfest hjá honum vilji hún kalla hann á sinn fund.

Síðan spurði hv. þm. Jón Magnússon hvort ég teldi að hugtök eins og þagnarskylda og bankaleynd heyrðu sögunni til almennt og það ætti ekki að hafa uppi slíka leynd, en það sem ég sagði í minni ræðu var, með leyfi forseta:

„Hugtök eins og þagnarskylda og bankaleynd eiga að heyra sögunni til þegar jafnmikilvægir hagsmunir eru í húfi og nú.“

Ég tók það því fram um það sérstaka mál sem hér er til umræðu og er tilefni þess að ég flyt frumvarpið að ég tel að menn eigi að líta til þessara hugtaka og afnáms leyndarinnar við þær aðstæður sem við búum við núna.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir vék að því að gott væri að finna heiti á embættið sem gæfi glöggt til kynna hvaða embætti þetta væri. Ég hef ekki slíkt heiti á takteinum. Við tölum hér um sérstakan saksóknara sem hafi þær skyldur sem í frumvarpinu er lýst. Ef hv. nefnd getur fundið gagnsærra heiti á þennan embættismann er það vel þegið af minni hálfu og ég mun huga að því líka eftir þessa ábendingu.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði og vísaði til þess sem gerðist á fundi mínum með nefndinni hinn 11. nóvember síðastliðinn, á opnum fundi sem menn geta kynnt sér á vefsíðu Alþingis, þ.e. það sem þar fór fram og er líka til upplýsingar um efni frumvarpsins ef fólk hefur sérstakan áhuga á því, að þá sagði ég að ég mundi gjarnan vilja eiga samráð við allsherjarnefnd um það hver tæki þetta embætti að sér. Einnig sagði ég að ég fagnaði tillögum frá nefndinni ef hún gæti bent mér á einhvern sem hún teldi yfir allan vafa hafinn og gæti tekið þetta embætti að sér. Ég sagði hins vegar líka að ábyrgðin yrði á herðum dómsmálaráðherra og það er ekki hægt með neinum hætti að breyta þeirri skipan. Að lokum er það dómsmálaráðherra sem ber ábyrgð á því hvern hann skipar í þetta embætti. En allar góðar tillögur og samráð er ég tilbúinn að hafa um það og ræða nöfn á einstaklingum. Ef menn hafa áhuga á því að koma því á framfæri við mig og ræða í trúnaði við mig á vettvangi nefndarinnar eins og jafnan er gert þegar þingnefndir fjalla um einstaklinga þá er ég tilbúinn að huga að því.

Varðandi tengslin við þá rannsóknarnefnd sem er á döfinni hér á vegum forseta þingsins í samráði við forustumenn flokkanna tel ég einsýnt að það eigi að tengja það og þess vegna sé nauðsynlegt og gagnlegt að þetta frumvarp sé komið fram og það lagt fram hér og helst orðið að lögum sem fyrst til þess líka að þegar menn eru að vinna við hitt frumvarpið þá átti þeir sig á því hvernig þessum tengslum er best háttað.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir vitnaði í ræðu Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra og ef ég heyrði rétt var það í þeim kafla ræðunnar, með leyfi forseta, þar sem segir:

„Niðurfelling forráðamanna Kaupþings á ábyrgðum sínum og annarra hafði legið fyrir vikum saman án þess að nokkuð væri um það upplýst. Það var ekki fyrr en hneykslaðir starfsmenn láku þessum upplýsingum út sem þær urðu almannaeign. Og síðan hefur ekkert verið upplýst, hvernig því máli verður fylgt eftir.“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Ábendingar sem bárust um að kalla til lögreglu strax í upphafi hafa ekki fengið brautargengi.

Eru menn að bera fyrir sig bankaleynd í þessu sambandi?“

Það sem þarna segir í ræðunni er að einhverjir hafi bent einhverjum á að kannski væri ástæða til að kalla til lögreglu. Hann er ekki að segja í ræðunni að leitað hafi verið til lögreglunnar heldur að ábendingar hafi komið fram. Svo ég lesi aftur, með leyfi forseta:

„Ábendingar sem bárust um að kalla til lögreglu strax í upphafi hafa ekki fengið brautargengi.“

Þessar ábendingar hafa ekki fengið brautargengi samkvæmt ræðunni.

Síðan spyr seðlabankastjórinn, með leyfi forseta:

„Eru menn að bera fyrir sig bankaleynd í þessu sambandi?“

Þarna er einmitt vikið að því sama og ég vék að hér í mínu máli um það að menn séu kannski að teygja hugtakið bankaleynd og skjóta sér á bak við bankaleynd í þessum málum í staðinn fyrir að upplýsa og kalla á lögreglu ef þeim þykir ástæða til. Kannski eru einhverjir líka að bíða eftir að þetta frumvarp verði að lögum, að það verði komið í lög sem segir í 4. gr. frumvarpsins um það að menn sæti ekki ákæru miðað við þær forsendur sem gefnar eru í 4. gr. Mér finnst að þetta orðalag gefi beinlínis til kynna nauðsyn þess að frumvarpið nái fram að ganga og það sjónarmið nái líka fram að ganga að menn séu ekki að skjóta sér á bak við bankaleyndina og teygja hana lengra en góðu hófi gegnir þegar um þessi mál er rætt.

Þetta kemur heim og saman við það sem ég sagði í minni ræðu, með leyfi forseta:

„Hugtök eins og þagnarskylda og bankaleynd eiga að heyra sögunni til þegar jafnmikilvægir hagsmunir eru í húfi og nú.“

Það er um þetta sem málið snýst en ekki það — í ræðunni segir ekki að lögregla hafi verið kölluð til eða að lögregla hafi eitthvað skirrst við ef til hennar hefði verið leitað. Það kemur ekki fram í þessum orðum seðlabankastjórans heldur að einhverjir hafi látið undir höfuð leggjast að kalla á lögregluna og má skilja orð hans þannig að einhverjir hafi talið ástæðu til að gera það.

Ég vil líka skýra frá því að að sjálfsögðu hafa (Gripið fram í.) starfsmenn ríkislögreglustjóra, efnahagsbrotadeildin og starfsmenn, ákæruvaldshafar innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu verið tilbúnir að taka á móti öllum þeim ábendingum og öllum þeim álitaefnum sem menn telja að eigi heima hjá lögreglunni og það hefur ekkert lát verið á þeirri eðlilegu starfsemi sem er uppi þannig að lögreglan er náttúrlega, ef ég má nota það orð, í startholunum þegar til hennar er leitað í þessu máli eins og öðrum. Ég veit ekki hvort það hafi verið gert. Ég hef ekki vitneskju um það.

Varðandi málefni það sem hv. þm. Atli Gíslason — hann er nú ekki hér í salnum. (Gripið fram í: Hann þurfti að víkja frá.) Það er mjög bagalegt að hann skuli ekki vera hér því að hann fór með rangt mál í upphafi ræðu sinnar þegar hann sagði að ég hefði falið ríkissaksóknara að leita að því eða kanna hvort rökstuddur grunur væri um afbrot í þessu ferli. Ég fór aldrei þess á leit við ríkissaksóknara. Ríkissaksóknari sneri sér til mín með hugmynd um að reynt yrði að kortleggja umfang þessa máls og hann fékk Boga Nilsson til þess að vinna það verk og Bogi Nilsson skilaði skýrslu til ríkissaksóknara og ríkissaksóknari sendi mér bréf sem birt er með þessu frumvarpi. Ég er furðu lostinn í raun og veru að heyra hvernig hv. þm. Atli Gíslason ræðir um þetta mál og mér finnst að bæði þessi ummæli hans og önnur ummæli sem hann hefur látið falla um þessa starfsemi á vegum ríkissaksóknara gefi til kynna að hann hafi ekki kynnt sér málið nægilega vel til þess að fara með rétt efni þegar hann ræðir það.

Það er algjörlega ástæðulaust að vitna þannig í greinargerðina sem frumvarpinu fylgir og ræðu mína 17. október í Háskóla Íslands á þann veg að það geri mig á einhvern hátt vanhæfan til þess að skipa sérstakan saksóknara. Þetta minnir mig bara á þau ummæli sem voru höfð uppi og fóru fyrir Hæstarétt í svokölluðu Baugsmáli þegar var talið að orð sem ég lét falla á vefsíðu minni gerðu það að verkum að ég gæti ekki skipað sérstakan saksóknara í því máli. Því var síðan vísað að lokum til mannréttindadómstólsins í Strassborg sem að sjálfsögðu taldi enga ástæðu til að taka málið fyrir. Að tala um það hér nú að það sé eitthvert orðalag í ræðu sem ég flyt í Háskóla Íslands og set í greinargerð geri mig vanhæfan til þess að skipa sérstakan saksóknara er náttúrlega út í hött og furðulegt að stjórnmálamaður skuli taka það upp á þessum vettvangi, hér í þingsalnum þar sem menn hafa fullt frelsi til að lýsa skoðunum sínum og eiga að gera það og ekki að búa við að það sé talið að eitthvert vanhæfismál komi upp þegar menn lýsa skoðunum sínum. Ég harma því að hv. þingmaður gefi sér ekki tíma til að sitja þessar umræður þegar hann er með slíkar dylgjur í ræðum sínum sem hann flytur hér um þetta mál þótt hann segi í hinu orðinu að hann styðji það.

Varðandi að vitna síðan í greinargerð vegna lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og tengja það inn í þetta frumvarp er líka algjörlega fráleitt og fráleitur málatilbúnaður enda var frumvarpið samið án þess að menn hefðu nokkra vitneskju um hvað stæði í þessum gögnum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.