136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[14:11]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Ský hefur dregið fyrir sólu hjá ríkisstjórninni sem tók við völdum í lok maí á síðasta ári. Ríkisstjórn sem tók við völdum í sólríkju, í upphafi sumars fyrir 16 mánuðum síðan. Ríkisstjórn sem á að njóta stuðnings ríflega tveggja þriðju hluta þingheims, ríkisstjórn sem fór með himinskautum í vinsældarmælingum í upphafi kjörtímabils og naut þá stuðnings nær fimm af hverjum sex sem svöruðu könnunum. Aldrei fyrr hafði ríkisstjórn mælst með viðlíka vinsældir. Síðan eru liðnir 16 mánuðir og nú er hún Snorrabúð stekkur. Dimma hins kalda vetrar hefur náð yfirhöndinni og ríkisstjórn Íslands er rúin trausti. Ekki aðeins hefur hún hrapað að vinsældum meðal almennings úr ríflega 80% stuðningi niður í rúm 30% heldur er ástandið með þeim hætti að þriðjungur ráðherra Samfylkingarinnar vill boða til nýrra kosninga áður en kjörtímabilið er hálfnað og undir það hafa fjölmargir þingmenn úr báðum stjórnarflokkunum tekið.

Ég velti oft fyrir mér hvað veldur því að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eru svo mislagðar hendur sem raun ber vitni og hvers vegna hún hefur ekki meiri framtíðarsýn. Einu breytingarnar sem hún hafði komið til framkvæmda áður en bankakreppan skall á voru breytingar á tryggingamálum aldraðra þannig að þeir sem eru yfir sjötugu geta unnið eins mikið og þeir vilja án þess að bætur skerðist og síðan nú á haustþingi grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu sem gera auðveldara að koma einkavæðingu og einkarekstri fram í heilbrigðiskerfinu. Báðar breytingarnar eru sérstakt baráttumál sjálfstæðismanna og Samfylkingin kvittar undir.

Hæstv. forseti. Hvers vegna tillaga um vantraust? Það er vissulega viðburður þegar slík tillaga kemur fram og má geta þess að á 12 ára ferli Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í ríkisstjórn 1995–2007 kom engin slík tillaga fram. Ríkisstjórn Geirs H. Haarde nýtur sem fyrr segir aðeins trausts um 30% þjóðarinnar þrátt fyrir að hafa tvo af hverjum þremur þingmönnum á bak við sig. (Gripið fram í: Hvað um Framsóknarflokkinn?) Samkvæmt orðum prófessors við Háskóla Íslands, Þorvaldar Gylfasonar, á slík ríkisstjórn að víkja. Ríkisstjórnina skortir vilja til samvinnu og foringinn virðist haldinn fælni til ákvarðanatöku. Samfylkingin virðist ekki hafa skynjað hlutverk sitt og notar því mest af sinni orku til að berja á samstarfsflokknum. Alger skortur virðist vera á ábyrgðartilfinningu.

Formaður Samfylkingarinnar sagði við flokksmenn sína um helgina að Samfylkingin bæri ekki ábyrgð á mistökum fortíðarinnar og að Samfylkingin hafi varað við bankahruninu. Ekki veit ég hvar þær viðvaranir komu fram. Þvert á móti virðist formaður Samfylkingarinnar ekki hafa gert neitt við allar þær viðvaranir sem hún fékk frá bankastjórn Seðlabankans á sex fundum sem fyrst voru haldnir í febrúar á þessu ári. Það sem meira er þá virðist hún hafa haldið fundunum leyndum fyrir bankamálaráðherranum sem er félagi hennar í Samfylkingunni sem og öðrum ráðherrum síns eigin flokks. Er nema von að þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar kalli á kosningar?

Til að kóróna ástandið þótti formönnum hins stóra stjórnarmeirihluta greinilega ekki taka því að gera stjórnarandstöðunni grein fyrir því að fundirnir hafi verið haldnir og hvað þá íslensku þjóðinni. Blekkingarleikurinn var alger. Á yfirborðinu var allt í lukkunnar velstandi en undir niðri hrönnuðust vandamálin upp hvert á fætur öðru.

Hæstv. forseti. Eins og hér hefur komið fram stóð þingflokkur framsóknarmanna að setningu neyðarlaganna að kvöldi 6. október. Það gerðum við vegna þess að um var að ræða að tryggja innstæður á bankareikningum og reyna að koma í veg fyrir að þjóðin stæði uppi algerlega án viðskiptabanka. Frumvarpinu var dreift í þinginu á þingfundi síðdegis á mánudegi og orðið að lögum fyrir miðnætti. Áður en þingfundur hófst hafði forsætisráðherra ávarpað þjóðina og greint frá hinni alvarlegu stöðu og bað guð að blessa Ísland.

Ekki hefur komið fram hvað gerðist þennan sögulega dag. Það sem liggur hins vegar fyrir er að alla helgina var mikið fundað í Ráðherrabústaðnum. Seint að kvöldi sunnudags veitti forsætisráðherra viðtal og sagði að engin niðurstaða hefði fengist. Þrátt fyrir það væri fyrir hendi andrými eins og virðulegur ráðherra kallaði það. Andrýmið var ekki meira en svo að sólarhring síðar hafði Alþingi sett neyðarlög þar sem fjármálaráðherra auk Fjármálaeftirlitsins fengu miklar valdheimildir vegna sérstakra aðstæðna. Rétt er að árétta að hremmingar á fjármálamörkuðum hafa dunið yfir um allan hinn vestræna heim og einnig Asíulönd. Bankakreppan hitti Ísland hins vegar einstaklega illa fyrir þar sem bankarnir höfðu vaxið þjóðfélaginu langt yfir höfuð.

Þá komum við að spurningunni: Hvernig gat það gerst? Hvers vegna tóku forustumenn ríkisstjórnarinnar ekki mark á viðvörunum Seðlabankans sem komið var á framfæri við þá á a.m.k. sex fundum? Var það af því að ekki var tekið mark á formanni bankastjórnar Seðlabankans? Ef forsætisráðherra tekur meira mark á bankastjórum viðskiptabankanna en formanni bankastjórnar Seðlabankans, sem hann hafði áður fundað með, þýðir það á venjulegri íslensku að hann ber ekki traust til bankastjórans og á að láta hann fara. Þetta er lykilspurning í því máli sem hér er til umfjöllunar.

Hvernig stendur á því að á vordögum sagði hæstv. forsætisráðherra á Alþingi þegar gengi íslensku krónunnar rétti örlítið úr kútnum að botninum væri náð? Þá stóð gengisvísitala krónunnar í 155 stigum en núna í 237. Þá hafði Alþingi ekki enn heimilað lántöku til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann upp á 500 milljarða kr. Ég hef beðið um sérstaka utandagskrárumræðu um hvernig staðið var að styrkingu gjaldeyrisvaraforðans. Alþingi og þjóðin öll verða að fá að vita hvort lán fengust yfir höfuð í því skyni, hvort þau þóttu of dýr eða hvort tekin var pólitísk ákvörðun um taka ekki lán. Miðað við þær upplýsingar sem formenn stjórnarflokkanna bjuggu yfir á þessum tíma er ómögulegt annað en það hafi verið hægt að koma í veg fyrir að svona illa færi.

Hæstv. forseti. Þann 19. nóvember afgreiddi stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lánsheimild til Íslands vegna fjármálakreppunnar. Þar með lauk, í bili a.m.k., einangrun og sérhyggju í stjórn íslenskra utanríkis- og efnahagsmála sem hafði ríkt síðan í lok september. Einhliða lagatúlkun á ábyrgð Íslands og leikreglum hins evrópska og alþjóðlega markaðar átti litla stoð í raunveruleikanum. Yfirlýsingar um að annaðhvort styddu menn stjórnvöld eða styddu þá sem settu á Ísland hryðjuverkalög og að nýtt ástand kallaði á nýja vini minnti meira á þá ríkisstjórn sem brátt kveður Hvíta húsið í Washington en ríkisstjórn sem heldur um stjórnartaumana á einu Norðurlandanna. Þrátt fyrir öll stóru orðin sem voru viðhöfð í stofunni í Ráðherrabústaðnum í von um að þau yrðu túlkuð og flutt breskum stjórnvöldum urðu þau orð hjákátlegri með hverjum deginum sem leið uns ríkisstjórnin viðurkenndi sig sigraða.

Spurningin um það hvers vegna stjórnvöld í Bretlandi beittu hryðjuverkalögum á íslensk fyrirtæki svífur enn í loftinu og virðist sem aðeins einn maður á landinu hafi óbrigðult svar við henni. Það er Davíð Oddsson seðlabankastjóri. Á bara að hafa hlutina þannig? Er það ekki dálítið neyðarlegt fyrir íslensku ríkisstjórnina?

Í viðtali við Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra Alþýðuflokksins, sem er varaformaður bankaráðs Seðlabankans og formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins, í Kastljósi nýlega kom fram gagnrýni á að Seðlabankinn hafi létt á bindiskyldu þann 25. mars. Sú ákvörðun var tekin eftir að bankastjórnin kom skelkuð frá London eftir að hafa fundað þar með stórum bönkum og matsfyrirtækjum, samkvæmt því sem kom fram í ræðu Davíðs Oddssonar á þriðjudag á fundi Viðskiptaráðs. Jón segir enn fremur að bankahrunið á Íslandi sé atburðarás að kenna sem hófst í fjarlægum löndum. Hann segir líka að hvergi sé að finna reglu um að bankar megi ekki vera mörgum sinnum stærri en hagkerfið. Þetta er allt rétt og þetta var vandamál umhverfisins sem íslenska bankakerfið var rekið í. Þetta þarf þó ekki að þýða að engir vegir hafi verið færir. Jón Sigurðsson, sem bæði er varaformaður bankaráðs Seðlabankans og stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins og þar að auki fyrrverandi bankastjóri Norræna fjárfestingarbankans, hlýtur að hafa gert sér grein fyrir í hvað stefndi.

Samkvæmt margnefndri ræðu Davíðs Oddssonar í síðustu viku virðist hann hafa talið að hægt hefði verið að bregðast við með einhverjum hætti. Ekki er hægt að skilja sex fundi með forustumönnum ríkisstjórnarinnar á annan hátt. Jón Sigurðsson virðist annarrar skoðunar.

Í máli formanns Samfylkingarinnar á fundi flokksins um helgina kom fram að hún hefði lengi varað við afleiðingum bankakreppu og viljað koma við vörnum og hverjar voru varnirnar? Þær voru aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru. Enginn þarf að fara í grafgötur með hver átti að fá þessa sneið frá formanninum Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Það var sessunautur hennar á ráðherrabekknum, Geir H. Haarde. Ég get tekið undir það með utanríkisráðherra að ef Ísland hefði verið aðili að Evrópusambandinu og með evru sem gjaldmiðil hefði þetta að öllum líkindum ekki gerst. Ég verð hins vegar að segja að ég minnist þess ekki að hafa fundið fyrir miklum stuðningi frá Samfylkingunni þegar ég vildi ræða upptöku evru í tíð minni sem viðskiptaráðherra fyrir nokkrum árum. (Gripið fram í.) Viðtökurnar frá Sjálfstæðisflokknum voru þær að enginn nema sú sem hér stendur gæti komið fram með svona vitleysu. (Gripið fram í: Þú getur nú gert betur en þetta.)

Hæstv. forseti. Sú aðgerðaáætlun sem ríkisstjórnin hefur kynnt til aðstoðar skuldugum heimilum í landinu er ófullnægjandi með öllu. Vissulega verður hægt að lækka greiðslubyrði verðtryggðra lána tímabundið. Um skammgóðan vermi er þó að ræða því þetta leiðir til aukins kostnaðar lántakenda þegar upp er staðið. Aðrar aðgerðir sem kynntar hafa verið ná einnig of skammt.

Það sem ég gagnrýni ríkisstjórnina harðlega fyrir er skortur á framtíðarsýn fyrir hönd Íslands. Forsætisráðherra Geir H. Haarde sagði í viðtalsþætti í gærkvöldi að það þyrfti að framleiða og framleiða, skapa meiri verðmæti. Hann sagði einnig að það þurfi að skapa ný störf. Hvað er ríkisstjórnin að gera til að fylgja þessum orðum eftir? Svarið er: Ekki neitt.

Orðið iðnaður kemur ekki fyrir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þau voru of fín, formenn stjórnarflokkanna, þegar þeir töluðu saman á Þingvöllum í fyrravor til að taka sér það orð í munn. (Gripið fram í.) Ríkisstjórnin hefur lagt sig fram um að stöðva þau áform sem uppi hafa verið í atvinnumálum enda er ekki samstaða á milli stjórnarflokkanna um uppbyggingu í neinni atvinnugrein. (Gripið fram í: En innan stjórnarandstöðunnar?) Það þurfti vissulega festu og þolinmæði til að gera það mögulegt í tíð síðustu ríkisstjórnar að byggja upp áliðnað en það tókst. Nú er útflutningur áls tæplega 40% af útflutningi þjóðarinnar og samkvæmt skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði í október telja 78% landsmanna að álver hafi frekar eða mjög jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf. Aðeins rúmlega 8% telja áhrifin frekar eða mjög neikvæð. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar hvað varðar frekari uppbyggingu áliðnaðarins? Ætli hún sé ekki bæði og. Á meðan situr allt fast. Sennilega er ríkisstjórnin þó sammála um að rétt sé að ljúka því verki sem undirbúið var í tíð síðustu ríkisstjórnar og snýst um að gera vinnslu olíu mögulega í efnahagslögsögu Íslands. Þetta segir formaður Náttúruverndarsamtakanna reyndar að samræmist ekki stefnu ríkisstjórnarinnar þannig að umhverfisráðherra mun ef að líkum lætur beita sér gegn þessu. Mér finnst þó ýmislegt benda til þess að iðnaðarráðherra sé ekki alveg í takt við raunveruleikann þegar hann segir að olían muni gera Ísland að ríkustu þjóð í heimi. Er ekki skynsamlegra, hæstv. forseti, eftir það áfall sem þjóðin hefur orðið fyrir að tala aðeins meira af varfærni.

Hæstv. forseti. Að lokum þetta: Sjaldan eða aldrei í lýðveldissögunni hefur verið mikilvægara en nú að samstíga ríkisstjórn sem nýtur óskoraðs trausts haldi um stjórnartaumana, ríkisstjórn sem hefur styrk til að kalla eftir skoðunum og aðstoð annarra, ríkisstjórn sem er óhrædd við að tala við þjóð sína, upplýsa hana og vinna með henni. Við þurfum ríkisstjórn sem getur tekist á um mál og komist að farsælli niðurstöðu eftir rökræður þar sem tekist er á um ólík sjónarmið. Ríkisstjórnarfundir hafa aldrei verið hugsaðir sem vettvangur sérálita sem sett eru fram í þeim tilgangi að slá pólitískar keilur ekki síst þegar um er að ræða að slíkar bókanir eiga ekki að vera öllum heyrinkunnugar. Til þess þarf hinn fámenni ríkisstjórnarhópur að leka þeim. Við þurfum því ríkisstjórn þar sem traust ríkir og menn geta snúið bökum saman. Það sýnir forustuleysi af hálfu forsætisráðherra að hann virðist láta allt yfir sig ganga, bæði af hálfu samstarfsflokks og einnig af hálfu fyrrverandi formanns síns sem nú situr í stóli seðlabankastjóra.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins kallaði þetta umburðarlyndi í viðtalsþætti í gærkvöldi. Nú er það svo að umburðarlynd er dyggð sem aldrei má gera lítið úr. Umburðarlyndi má hins vegar ekki bitna á ákvarðanatöku. Það þarf festu við aðstæður sem þessar. Núverandi ríkisstjórn virðist skorta bæði kjark og festu og því segi ég: Við aðstæður sem þessar þurfa kjörnir fulltrúar að leita eftir nýju umboði þjóðarinnar. Ríkisstjórnin á því að víkja. Það á að boða til nýrra kosninga og þeir sem þjóðin treystir eiga að koma að uppbyggingu hins nýja Íslands með þjóðinni en ekki í andstöðu við hana.