136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[15:14]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég dreg það ekkert í efa að margar fjölskyldur eru illa skuldsettar í landinu. Við vitum það og það er af ýmsum ástæðum. Við vitum að það var verið að lána í bönkunum, jafnvel fermingarbörnum, það var verið að lána til almennrar neyslu lán sem jafnvel voru tengd erlendum gjaldmiðli. Það eru margar fjölskyldur illa skuldsettar í landinu og hafa heilmiklar skuldbindingar núna ekki síst vegna húsnæðismála. Það eru íbúðirnar, það eru heimilin sem eru í voða vegna verðtryggingarinnar. Það hefur verið upplýst hér að það verða litlir 240 milljarðar kr. sem velt verður yfir á heimilin í landinu í gegnum íbúðalánin á einu ári vegna verðbótaþáttarins. Þarna þarf virkilega að gera eitthvað.

En ef umhyggjan fyrir heimilunum er svona mikil þá hlýt ég að spyrja hv. þingmann: Er hann tilbúinn til að flytja með mér breytingartillögu við þetta frumvarp um að sett verði takmörk við skattaniðurfellingu sem hér er um að ræða við eitthvað sem við getum fundið út úr að sé svona venjulegur heimilisbíll eða fjölskyldubíll?