136. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[15:22]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á tvennum lögum, þ.e. um vörugjald af ökutækjum og virðisaukaskatt af ökutækjum. Frumvarpið fjallar um heimild til að endurgreiða bæði vörugjald og virðisaukaskatt af notuðum bílum ef þeir eru seldir úr landi. Eins og farið hefur verið yfir hafa nokkur þúsund nýir bílar, sem bílainnflutningsfyrirtæki hafa flutt inn og vænst að selja á árinu, safnast upp alveg ónotaðir og þá að öllum líkindum flestir ótollaðir. Bílasölurnar eru yfirfullar af bílum, bæði vegna þess að fólk hefur keypt sér nýja bíla og ætlað að selja þá gömlu, eða þá að fólk er að reyna að selja bíla sem það hefur fjárfest í og getur ekki lengur staðið undir afborgunum af.

Þetta er auðvitað ein af mörgum myndum tímabilsins sem við höfum upplifað undanfarin fimm, sex ár. Á síðasta ári, 2007, var gefið sérstaklega í og má segja að við höfum algjörlega misst okkur og íslenska þjóðin farið fram úr sér á svo mörgum sviðum. Það sást á bílaeign landsmanna.

Oft sér maður bæði sitt eigið umhverfi og umhverfið á Íslandi með augum gestsins. Ég hef verið svo heppin að fá erlenda gesti í heimsókn sem flestir hafa verið algjörlega undrandi á bílaflotanum. Hvað er með Ísland? Hvernig getum við verið á svona nýjum bílum? Þegar Japanar komu hér í fyrrasumar og gengu um göturnar og sáu alla japönsku bílana og allan bílaflotann, eins og hann var, spurðu þeir: Hvernig hafið þið efni á þessu? Við reyndum að útskýra að nýju bílarnir væru flestir teknir á lánum og svona hefði þetta bara gengið og við Íslendingar kysum að aka um á nýjum bílum.

Vissulega höfðum við fært okkur upp á skaftið með góðu aðgengi að lánsfé þar sem ótæpilega var lánað fyrir neyslu og bílum og það í erlendri mynt. Þegar farið verður yfir þetta hamfaratímabil í sögu landsins þarf að skoða hvernig það mátti vera. Ber ekki einhver ábyrgð á því að veita neyslulán, bílalán, í erlendri mynt, í erlendum gjaldmiðli? Fyrir utan verðið á bílunum taka myntkörfulánin, í erlendum gjaldmiðli, endanlega fyrir að fólk geti greitt af lánunum.

Þetta er hluti af því að komast út úr vandanum sem við erum í. Það er sóun að láta bifreiðarnar sem standa ónotaðar á hafnarbakkanum grotna niður. Ég vil láta skoða hvort hægt sé að auðvelda það með einhverjum hætti, eða hvort ekki sé möguleiki fyrir innflytjendur að koma bílunum úr landi ónotuðum og reyna ekki að koma þeim inn á markaðinn og hjálpa til við að koma úr landi nýlegum bílum, sem verðmæti eru í og fólk hefur ekki lengur efni á að greiða af og fjárfesta í og vill losna við. Mér finnst það vera rétt leið og hún ætti að koma okkur niður á jörðina. Þetta er hörð lexía sem mörg okkar verða að læra af.

Mér finnst líka skipta miklu máli að horfa til framtíðar og taka upp ný viðmið, láta ekki bara markaðinn ráða eins og hefur verið fram að þessu. Að við stuðlum að því að fá hingað til lands nýja bíla, enn umhverfisvænni en verið hefur, og hvetjum til að hér verði notuð önnur orka til að knýja bifreiðarnar áfram og þá horfi ég sérstaklega til rafmagns, metans og annarra orkugjafa sem gætu komið á markaðinn. Til þess þurfum við að taka okkur tak og það kostar að koma þessu á. Hér var Nýja-Sjáland nefnt, ef ég tók rétt eftir, en þar er stuðlað að notkun rafmagnsbíla með því að koma upp tenglum og veita fólki þá möguleika að aka lengri vegalengdir á bílunum. Auðvitað þurfum við að móta okkur þessa framtíðarsýn og stuðla að henni.

Ég vil að við höfum framtíðarsýn, ekki til fjögurra ára heldur út öldina. Hvernig við viljum sjá samgöngur okkar þróast, bæði á láði og legi, og vinna markvisst að því. Það kostar nýjan hugsunarhátt og þýðir að við þurfum að horfa til orkugjafa í landinu til lengri tíma og þess að orkuauðlindir okkar eru takmarkaðar. Ef við ætlum að rafvæða bílaflotann og margt annað sem við notum olíu til í dag verður að stöðva stóriðjuframkvæmdir og orkunotkun til stóriðju, eins og verið hefur.

Ég tek undir orð hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur þegar hún benti á að hálfeinkennilegt hafi verið að sjá aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar þar sem bifreiðar voru eini liðurinn sem var verulega útlátasamur fyrir ríkissjóð, með endurgreiðslu virðisaukaskatts og vörugjalds. Aðrir liðir snúa frekar að því að fólki sé auðveldað að komast yfir þennan erfiða hjalla fram undan og dregið sé úr skellinum. Dregið verði tímabundið úr greiðslum en ríkissjóður taki ekki á sig verulegar byrðar nema með þessum lið. Ég tel að við eigum að skoða þetta vel og læra af innflutningi undanfarinna ára og aðgengi að neyslulánum og bílalánum í erlendri mynt.

Auðvitað viljum við horfa á umferðaröryggi og viljum ekki fara til þess tíma að hér sé ekið á hálfónýtum og óöruggum bílum en við eigum líka að horfa á umhverfið og öryggið og umferðina í þéttbýlinu. Það er ekkert vit í því — ef ég fer aðeins út fyrir rammann — að umferð sé leyfð á stórum og miklum fjallabílum og trukkum í miðbæ höfuðborgarsvæðisins, í Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum. Við þurfum að temja okkur eitthvert hóf í þessum málum.