136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[12:07]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil segja nokkur orð um þetta þingmál og þakka frummælanda fyrir góða framsögu í málinu. Það er ánægjulegt að náðst skuli hafa samstaða allra flokka um að flytja þetta mál. Vissulega hefur tekið nokkurn tíma að ná saman texta og taka tillit til allra sjónarmiða en nú liggur málið fyrir og ég lýsi stuðningi okkar framsóknarmanna við það. Við teljum mikilvægt eins og aðrir að þessi vinna fari fram og að hún geti farið nokkuð fljótt af stað og þess vegna vona ég að málið fái skjóta afgreiðslu í þinginu en að sjálfsögðu þarf að skoða það í nefnd.

Rannsóknarnefndin hefur verið til umfjöllunar nú þegar og var rætt um hvort hún eigi að vera þriggja manna eða kannski fjölmennari. Við lögðum áherslu á að þetta yrði fámenn nefnd þannig að hún gæti starfað á skilvirkan hátt. Niðurstaðan varð þriggja manna hefnd og þar skyldu eiga sæti, eins og kannski hefur þegar komið fram, í fyrsta lagi einn dómari Hæstaréttar, í öðru lagi umboðsmaður Alþingis og í þriðja lagi hagfræðingur, löggiltur endurskoðandi eða háskólamenntaður sérfræðingur. Þessir aðilar skipa sjálfa rannsóknarnefndina. Síðan hefur hún umboð til að skipa starfshópa og í þeim starfshópum reiknum við með að verði m.a. erlendir sérfræðingar og við teljum í raun mikilvægt að þannig sé þetta unnið.

Ég heyri að það vekur athygli að gert er ráð fyrir að forsætisnefnd skipi aðra þriggja manna nefnd sem á að fjalla um huglægari þætti málsins. Þetta er niðurstaða sem birtist í frumvarpinu eftir nokkra umræðu og ég tel ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af þeim þætti. Það verða að sjálfsögðu tengsl á milli þessarar nefndar og aðalnefndarinnar, þriggja manna rannsóknarnefndarinnar, og það tel ég mikilvægt.

Það er eðlilegt að spurt sé hvernig þau ósköp gátu gerst sem við stöndum frammi fyrir að áttu sér stað á Íslandi á síðustu vikum. Eitt getum við verið alveg sammála um að ef við værum ekki aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði hefði þetta ekki gerst. Ég held að það sé er algjörlega augljóst. Það er þetta frjálsa flæði fjármagns sem (Gripið fram í.) gerir bönkunum mögulegt að stækka með þeim hætti sem raun ber vitni og eins og þetta er samkvæmt lögum og samkvæmt EES-samningi eru útibú í Reykjavík og útibú í London í raun jafnsett. Það er í og með það sem hefur gert það að verkum að við stöndum frammi fyrir hinu svokallaða Icesave-máli, sem er mál út af fyrir sig og ég ætla ekki að fara út í efnisatriði frekar hvað það varðar.

Við reiknum með því að einhvers staðar hafi orðið mistök, annaðhvort í stjórnsýslunni eða í bankakerfinu á fjármálamarkaði og það muni liggja fyrir hver þau eru þegar þessi vinna hefur farið fram og það er krafa fólksins í landinu að fá upplýsingar um það. Ég hef heyrt sérfræðinga og prófessora tala um að lagaumhverfið hér á landi sé alveg í samræmi við það sem er í öðrum Evrópulöndum, þ.e. á Evrópska efnahagssvæðinu, en svo er spurningin hvers vegna í ósköpunum lagaramminn, lögin og reglurnar eru þannig að svona hlutir geti gerst. Það er umfjöllunarefni sem við eigum örugglega eftir að taka á eitthvað áfram.

Ég tel að málið sem hér er til umfjöllunar harmóneri ágætlega við það mál sem nú þegar er komið til allsherjarnefndar, þ.e. um embætti sérstaks saksóknara, og að því leyti til er jákvætt að allsherjarnefnd fjalli um þessi tvö mál á sama tíma og vonandi getur hv. Alþingi afgreitt bæði málin fyrir jól.

Eitt af því sem komið hefur fram í umræðu og verður e.t.v. skoðað af nefndinni er að það hafi verið mistök að bankaeftirlitið svokallaða eða það sem nú heitir Fjármálaeftirlitið hafi farið út úr Seðlabankanum og verið stofnað sérstakt fjármálaeftirlit. Þetta gerðist reyndar fyrir mína tíð í ríkisstjórn en ástæðan er sögð sú að aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við gerðu þetta og það að hafa sérstakt fjármálaeftirlit sé í rauninni alveg í samræmi við fyrirkomulag í öðrum löndum. Mér finnst forvitnilegt að vita hvað svona rannsókn segir um þá breytingu. Ég get ekki ímyndað mér að það sé eitthvað sem breytir öllu en við skulum láta skoða það líka.

Vegna orða sem voru látin falla áðan hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að stjórnvöld hafi staðið vaktina fyrir viðskiptalífið og á kostnað almennings þá finnst mér dálítið djarft að segja það. Ég held að erfitt sé að rökstyðja að svo hafi og það hafi verið ástæða og skýring fallsins mikla. Eins og ég kom inn á áðan erum við á þessum frjálsa markaði og hann býður upp á ótrúlega hluti og ég trúi ekki að það sé vilji þingsins að stíga það skref til baka og aftur til þess fyrirkomulags sem ríkti hér fyrir EES-samninginn, þó að ég hafi nefnt hann sérstaklega áðan.

Hæstv. forseti. Við munum fá þetta mál til umfjöllunar aftur eftir að það hefur verið til umfjöllunar í nefnd og þá mun ég hugsanlega ræða það frekar en ég lýsi sérstakri ánægju með að þetta mál skuli vera komið til umfjöllunar Alþingis.