136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[15:49]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mjög hafa nú skipast veður í lofti hvað varðar þær skuldbindingar sem verið er að leggja á okkur í Bretlandi, Hollandi og víðar frá því að hæstv. forsætisráðherra sagði að hann léti ekki kúga sig í þessum efnum og starfandi utanríkisráðherra, hæstv. iðnaðarráðherra, hafði einhver viðlíka orð og enn stærri um að hann mundi ekki lúta slíkum kúgunum af hálfu Evrópusambandsríkja. Nú kemur hæstv. utanríkisráðherra og, eins og reyndar hefur komið fram áður á Alþingi, íslensk stjórnvöld hafa lagst flöt fyrir þessum kúgunum og gengið til svokallaðra samninga.

Ég spyr hér um ákveðin grundvallaratriði. Í fyrsta lagi um upphæðir að hámarki á þeim lánum sem um er að ræða og gert er ráð fyrir að ábyrgjast í hverju landi. Það hefur komið fram að viðkomandi lönd hafi boðið lán og ég spyr um kjör þeirra, vexti og afborganir og slíkt. Ég vil líka spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvað átt er við með því sem kom fram í ræðu hennar hér um þetta mál fyrir nokkrum dögum síðan þar sem sagt er:

„Í öðru lagi kveður yfirlýsingin á um það að þessi ríki muni veita Íslandi ákveðna fjárhagsaðstoð og þau taka sérstakt tillit til Íslands vegna hinna erfiðu og fordæmalausu aðstæðna“ — eins og segir í yfirlýsingunni — „sem við glímum við hér á landi.“

Til hvaða sérstaka tillits er þarna verið að vísa?