136. löggjafarþing — 38. fundur,  27. nóv. 2008.

gjaldeyrismál.

189. mál
[20:19]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með síðari breytingum. Frumvarpið á þskj. 232 og er 189. mál þingsins.

Í viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 3. nóvember sl. var þeirri fyrirætlan lýst að koma á stöðugleika á gengi íslensku krónunnar. Tímabil samdráttar, fjárlagahalla og aukningar opinberra skulda er fram undan. Hugsanlegt er að fjármagnsflæði úr landi leiði til þess að gengi krónunnar lækki enn meira en orðið hefur, með verulega neikvæðum afleiðingum. Vegna skuldsetningar heimila og fyrirtækja gæti slík gengislækkun valdið stórskaða fyrir efnahag þjóðarinnar og aukið á samdráttinn í efnahagslífinu.

Í áætlun stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kemur fram að gert sé ráð fyrir að beitt verið blöndu af hefðbundnum og óhefðbundnum aðgerðum. Stýrivextir hafa verið hækkaðir í 18% auk þess sem Seðlabankinn er reiðubúinn að hækka þá enn frekar, ef þörf krefur. Einnig verður beitt aðhaldi hvað áhrærir aðgang bankanna að lánum frá Seðlabankanum með það að markmiði að ekki verði dregið um of á lausafé með þeim hætti. Þá hefur Seðlabankinn lýst því að til reiðu sé jafnvel að nota hluta gjaldeyrisforðans til að koma í veg fyrir of miklar sveiflur í gengi krónunnar. Óvíst er hvort þessar aðgerðir einar og sér nægi til að koma í veg fyrir fjármagnsútflæði. Því er talið óhjákvæmilegt samkvæmt áætluninni að beita tímabundnum takmörkunum á gjaldeyrisviðskipti vegna fjármagnsviðskipta, sem er efni frumvarps þessa.

Gjaldeyrishöftum á fjármagnsviðskipti fylgja ýmis hliðaráhrif. Því er stefnt að því að afnema þau svo fljótt sem auðið er og lagt til að heimild Seðlabankans til að gefa út reglur um takmarkanir eða stöðvun fjármagnshreyfinga verði bundin við tímabil stuðningsáætlunar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Í frumvarpinu er lagt til að fram til 30. nóvember 2010 verði Seðlabanka Íslands heimilt, að fengnu samþykki viðskiptaráðherra, að setja reglur sem takmarka eða stöðva tímabundið tiltekna flokka fjármagnshreyfinga og gjaldeyrisviðskipti vegna þeirra. Seðlabankanum verður heimilt að grípa til slíkra aðgerða ef líkur eru á að neyðarástand kunni að skapast vegna mikils útflæðis á gjaldeyri. Miðast heimildin við sama tímabil og áætlun Íslands um efnahagsstöðugleika vegna lánsumsóknar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins tekur til. Þá er lagt til að ef Seðlabankinn nýti heimildina með útgáfu reglna að fengnu samþykki viðskiptaráðherra að slíkar reglur komi til endurskoðunar a.m.k. á sex mánaða fresti.

Í frumvarpinu er lagt til að Seðlabankanum beri að tilkynna Fjármálaeftirlitinu vakni grunur um að brotið hafi verið gegn lögunum eða reglum settum á grundvelli þeirra. Í frumvarpinu er Fjármálaeftirlitinu jafnframt falin heimild til að leggja á stjórnvaldssekt vegna slíkra brota. Þá er lögð til breyting á refsiákvæðum, þ.e. lagt er til að Fjármálaeftirlitið kæri öll meiri háttar brot á lögunum sem varða refsingu til lögreglu, en teljist brot minni háttar er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka þeim með álagningu stjórnvaldssekta. Viðurlagaákvæði frumvarpsins eru í samræmi við sambærileg ákvæði laga á fjármálamarkaði um viðurlög við brotum.

Í 40. og 41. gr. EES-samningsins er kveðið á um meginregluna um frjálst flæði fjármagns. Verði gripið til takmarkana á fjármagnshreyfingum sem frumvarpið veitir heimild til má telja að þær gangi gegn þessari meginreglu samningsins. Með vísan til skuldbindinga Íslands samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir að öðrum aðildarríkjum og eftirlitsstofnunum svæðisins verði tilkynnt um þessa þróun mála í tengslum við efnahagsaðgerðir íslenskra stjórnvalda. Jafnframt gera stjórnvöld ráð fyrir að grípa til verndarráðstafana samkvæmt 43. gr. samningsins, sem veitir samningsaðilum heimild til slíks, reynist það nauðsynlegt til að bregðast við ýmiss konar erfiðleikum eða röskun á fjármagnsmarkaði viðkomandi aðildarríkis. Er það mat stjórnvalda að þær aðgerðir sem hugsanlega verður gripið til á grundvelli frumvarpsins falli undir fyrrgreint ákvæði og rétt sé að beita heimildum þess við slíkar aðstæður. Þá þarf einnig að huga að þjóðréttarlegum skuldbindingum á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO.

Formönnum stjórnarandstöðuflokkanna og stjórnarflokkanna, öllum fimm, hefur verið gerð grein fyrir því að þetta sé brýnt mál sem við þyrftum að koma í vinnu í nefndinni og afgreiða frá þinginu þannig að þær heimildir sem frumvarpið mælir fyrir verði til staðar hið fyrsta. Voru viðtökur við því mjög góðar og þakka ég formönnum flokkanna og stjórnarandstöðuflokkanna kærlega fyrir það.

Þeir flokkar fjármagnshreyfinga sem lagt er til að heimilt verði að stöðva eða takmarka taka mið af því að nauðsynlegt er talið að unnt sé að loka öllum mögulegum leiðum sem innlendir og erlendir aðilar hafa til að loka krónustöðum sínum fyrr en ella. Slíkt hefði annars vegar í för með sér ójöfnuð meðal aðila og myndi hins vegar leiða til þess að uppbygging gjaldeyrisforða landsins sem nýta þarf til að vinna á áðurnefndum krónustöðum tæki lengri tíma. Með takmörkunum á fjármagnsflutningum er geta aðila til að stofna til nýrra gjörninga takmörkuð.

Horfur eru á að vöru- og þjónustuviðskipti verði hagstæð á næstu missirum, bæði vegna aukinnar framleiðslugetu útflutningsfyrirtækja og vegna þess að einkaneysla mun dragast saman sem leiðir til minni innflutnings. Miklar stöðutökur erlendra aðila eru hins vegar áhyggjuefni sem fyrr segir. Höft á fjármagnshreyfingar hafa því aðeins gildi að erlendur gjaldeyrir sem aflað er vegna útflutnings skili sér til landsins. Án slíkra takmarkana munu útflutningsfyrirtæki hafa hag af því að selja gjaldeyri til fjárfesta á hærra gengi en fæst á innlendum gjaldeyrismarkaði. Að byggja upp gjaldeyrisforða sem hægt er að nýta til að greiða niður krónulán og verðbréf sem erlendir aðilar eiga mun taka tíma. Því er lagt til að Seðlabankinn fái heimild til að setja reglur í samráði við viðskiptaráðherra um skilaskyldu erlends gjaldeyris sem innlendir aðilar eignast fyrir seldar vörur og þjónustu eða á annan hátt. Ekki er gert ráð fyrir að gerð verði krafa um sölu á erlendum gjaldeyri heldur geti eigendur lagt hann inn á innlenda gjaldeyrisreikninga og þannig haft óheftan aðgang að þeim gjaldeyri vegna vöru og þjónustuviðskipta.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég þess að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.