136. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2008.

gjaldeyrismál.

189. mál
[04:01]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki var þetta andsvar eins gott og það fyrra, en látum það vera. Þegar hv. þingmaður heldur því fram að Framsóknarflokkurinn hafi ekki þorað að taka óvinsælar ákvarðanir í aðdraganda þessa efnahagshruns fer hann einfaldlega með rangt mál. Framsóknarflokkurinn stóð að því að setja neyðarlögin með ríkisstjórninni. Var einhver rosalegur meðbyr með þeirri ákvörðun? Nei. Þvert á móti sögðum við hér í umræðunni að við værum fús til samstarfs og nú væri brýnt að allir stæðu saman, hvort sem það væru stjórnmálaflokkar hér á Alþingi eða aðilar vinnumarkaðarins.

Ríkisstjórnin hefur einfaldlega fallið á því prófi, bæði gagnvart stjórnarandstöðunni og síðast en ekki síst gagnvart öllu atvinnulífinu í landinu og verkalýðshreyfingunni. Maður hlýtur að spyrja sig hvað sé í gangi þegar flokkur eins og Samfylkingin, sem á sterkar rætur í verkalýðshreyfingunni, hunsar grasrótina í flokknum með þeim hætti. Auðvitað eru ekki allir samfylkingarmenn sem eru innan vébanda Alþýðusambands Íslands en ég ætla bara að minna á það að forustumenn Alþýðusambandsins eru áhrifamenn í Samfylkingunni, en það virðist sem forusta Samfylkingarinnar, þingmenn og ráðherrar, sé ekki í neinum tengslum við þann raunveruleika hvað er að gerast innan vébanda Alþýðusambands Íslands. Það var raunalegt að horfa upp á það í dag hvernig ríkisstjórnin hefur komið fram við aðila vinnumarkaðarins á þeim tímum sem við þurfum svo sannarlega að standa saman.

Ég er alveg viss um að aðilar tengdir Samfylkingunni innan Alþýðusambands Íslands hljóta að hugsa sig um hvernig þessi flokkur hagar sér í mjög (VS: Gríðarleg vonbrigði.) erfiðum málum og þetta hlýtur að endurspeglast í orðunum „gríðarleg vonbrigði“ eins og hv. formaður Framsóknarflokksins, Valgerður Sverrisdóttir, sagði rétt í þessu.