136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

svæðisstöðvar RÚV.

[11:08]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ekki er miklu við það að bæta sem ég sagði hér áður. Ég tel mikilvægt að þessi fundur verði haldinn og vonast til að hann verði jafnvel haldinn á morgun og farið verði yfir þetta.

Ég sagði áðan að mér fyndist þetta misráðið þó svo að stjórnin hafi auðvitað vald um þetta og taki ákvarðanir eftir tillögum, vafalaust frá útvarpsstjóra og öðrum. Ég tel að við þingmenn hljótum að fá upplýsingarnar sem liggja að baki. Fjárhagslegar upplýsingar, sem eru mjög nauðsynlegar, um hvort þetta sé það mikilvægasta sem hægt er að skera niður í rekstri RÚV og hvort þetta sé það sem veldur mestu um taprekstur RÚV og fjárhagserfiðleika þess.

Ég leyfi mér að efast um það þegar tekið er tillit til auglýsingatekna sem koma eingöngu í gegnum þessar stöðvar að ég tali nú ekki um hið mikla menningarlega og fréttatengda efni sem sett er fram.

Ég geng aldrei til náða á kvöldin án þess að fara rúnt á vefnum í gegnum svæðisstöðvarnar allar þrjár (Forseti hringir.) og taka þær fréttir sem koma þar af landsbyggðinni. Ég er alveg viss um, virðulegi forseti, að sá fréttaflutningur sem þar er mun ekki skila sér jafnmyndarlega frá svæðisstöðvunum inn í landsfréttirnar (Forseti hringir.) og verið hefur hingað til.