136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[12:16]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tók einnig til máls við 1. umr. um það mál sem hér liggur fyrir, um endurgreiðslu á vörugjaldi af ökutækjum vegna möguleika á útflutningi á þeim þúsundum bíla sem standa hér á hafnarbakkanum og eru einnig í eigu einstaklinga sem ekki geta selt þá. Ég lýsti þá efasemdum mínum um þá forgangsröðun sem hér liggur fyrir og ég vil nota þetta tækifæri til að ítreka hana.

Ég tel sem sagt að ekki sé verið að forgangsraða hér með réttum hætti. Heimilin í landinu standa frammi fyrir mjög miklum efnahagslegum þrengingum, ekki bara núna heldur á komandi árum. 1–2 milljarðar kr. í endurgreiðslur úr ríkissjóði gætu komið sér vel fyrir heimilin með ýmsum hætti, m.a. í formi hækkaðra vaxtabóta og húsnæðisbóta en einnig með hækkun barnabóta eða skattleysismarka. Svo ekki sé nú talað um hækkun atvinnuleysisbóta sem verulega þarf að taka til skoðunar.

Ég skal verða fyrst til að viðurkenna að það getur verið erfitt fyrir þá sem nú geta ekki selt bílana sína fullu verði og hafa kannski keypt þá með erlendu láni. Ég viðurkenni að það getur verið erfitt og að þessu frumvarpi er ætlað að auka möguleika þeirra til að fá eitthvað fyrir útgjöld sín og að aðgerðir ríkisstjórnarinnar geti þannig létt undir í því tilfelli. Það er hins vegar deginum ljósara að því dýrari sem bíllinn upphaflega var, því stærri og dýrari sem bíllinn var þeim mun meiri verða útlátin úr ríkissjóði. Ég hefði því kosið ef ríkisstjórnin ætlaði sér að standa við það að þetta væri fyrst og fremst ætlað til að bæta stöðu heimilanna í landinu að sett hefði verið þak á þessar endurgreiðslur við eitthvað, eins og ég orðaði það við 1. umr., sem menn gætu fallist á að væri svona eðlilegur rúmgóður fjölskyldubíll. Svo er ekki og ég hlýt að lýsa miklum vonbrigðum með það. Þeir munu fá mest úr þessum endurgreiðslum sem keypt hafa dýrustu bílana enda þótt erfiðleikarnir við sölu bæði lítilla, ódýrra, sparneytinna bíla séu jafnmiklir og stórra og dýrari bíla.

Ég hef líka bent á og tel reyndar einboðið að þessi aðgerð muni fyrst og fremst nýtast fyrir bílaleigur í landinu, það er upplýst að þar stendur fyrir dyrum mikil endurnýjun, en einnig fyrir bílaumboðin sem hafa tekið mikið af gömlum bílum upp í nýja og sitja nú með þá óselda. Ég hefði viljað sjá einhverjar áætlanir um hvernig fyrirhugað er að beina þessum fjárútlátum úr ríkissjóði til annarra en þessara stóru aðila.

Ég hef einnig bent á að það er ótryggt með öllu hvernig sá gjaldeyrir sem fyrirhugað er að fá til baka fyrir sölu þessara bíla muni skila sér heim. Ég sé ekki að það hafi verið rætt í nefndinni. Ég sé ekki í nefndarálitinu að fjallað hafi verið um það sérstaklega. En í greinargerð með frumvarpinu kom fram að þarna væri um allt að 1,5–2 milljarða kr. að ræða úr ríkissjóði en á móti gætu skilað sér gjaldeyristekjur upp á allt að 10 milljarða kr.

Ég veit ekki betur, eins og ég sagði við 1. umr., en að menn geti í krafti Evrópska efnahagssvæðisins opnað reikninga erlendis í þeim löndum sem bifreiðarnar eru seldar og lagt andvirðið þar inn. Ég hlýt að kalla eftir tryggingu því að það er ein af röksemdunum fyrir frumvarpinu að það eigi að fá einhvern gjaldeyri inn í landið en ég sé ekki að það sé tryggt að hann muni skila sér.

Ég verð að lýsa vonbrigðum með ríkisstjórnina enn og aftur vegna rangrar forgangsröðunar. Ég viðurkenni að þessar aðgerðir geta gagnast einhverjum heimilum í landinu en eins og ég endurtek fyrst og fremst kannski heimilum þeirra sem hafa farið í of miklar bílafjárfestingar og heimilum þeirra sem reka bílasölur og bílaleigur. Það er gott út af fyrir sig en vandi almennings og almennra heimila í landinu stendur óbættur hjá þessari ríkisstjórn enn þá. Lesa má um það í blöðunum í dag að yfirlýsingar sem orðnar eru þriggja, fjögurra vikna gamlar um breytingar á greiðslu barnabóta koma ekki til framkvæmda fyrr en í fyrsta lagi 1. febrúar og verða þá til skerðingar á því sem menn hafa mátt reikna með að fá á þeim degi. Það er því ekki eitt heldur allt, frú forseti, sem ríkisstjórnin er að gera rangt að mínu mati.