136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og virðisaukaskattur.

175. mál
[12:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi reykingar af því að það er almennt viðurkennt og búið að vera þekkt lengi að reykingar valda krabbameini og þeir sem reykja stuðla þá í rauninni að því. Nákvæmlega eins og þeir sem keyptu bíla og lentu í þessu. Ég var bara að benda á þetta.

Varðandi það að setja þak og hvað sé eðlilegur fjölskyldubíll. Ég tel reyndar að jeppi upp á 5 millj. kr. sé ekki eðlilegur fjölskyldubíll. Ég mundi alla vega ekki tíma að keyra svoleiðis bíl en margir gera það. Og þó að einn og einn mjög dýr bíll slæddist með, þeir eru kannski örfáir á landinu, þá er nýbúið að borga mjög há gjöld af þeim til ríkissjóðs. Menn eru nýbúnir að borga geysilega há gjöld af þessum bílum og þegar þeir flytja þá út aftur finnst mér eðlilegt að þeir fái hluta af þeim gjöldum endurgreiddan. Eins og kom fram í nefndinni eru afskriftareglurnar mjög stífar þannig að bílarnir afskrifast mjög hratt. Þessi endurgreiðsla er eiginlega fyrir mjög nýlega bíla sem er nýbúið að borga mjög há gjöld af.