136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[12:04]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu erum við ekkert ósammála um margt sem þessu máli tengist. Við þingmenn getum ekkert verið ósammála um þá erfiðleika sem íslenskt þjóðarbú stendur frammi fyrir. Það er tilgangslaust að þrasa eitthvað um það. Þeir eru eins og þeir eru og ekki reyni ég að ræða þessa hluti öðruvísi en að horfast í augu við þá af raunsæi.

Ég gagnrýni hins vegar margt í því hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur haldið á málum og ég ber mikinn kvíðboga í brjósti fyrir því að farin sé sú leið sem felst í þeirri heildaráætlun sem fólgin er í báðum þeim þingmálum sem eru á dagskrá í dag. Ég er alveg sérstaklega kvíðinn ef það verður í höndum ríkisstjórnar og stofnana sem njóta ekki trausts, hvorki inn á við né út á við. Það þyrfti að vera stór hluti af þessu verkefni, því endurreisnarverkefni sem þjóðin stendur frammi fyrir, að safna saman kröftunum og fylkja liði á bak við forustu sem nyti trausts á öllum vígstöðvum, í stjórnmálum, í fagstofnunum, úti í viðskiptalífinu og annars staðar. En því miður er því ekki að heilsa í dag og í samfélaginu er útbreitt vantraust í gangi.

Það er að sjálfsögðu gott og ég fagna yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra um að eins lítið af þessum lánum verði tekið og hægt er og eins lítið notað og mögulegt er. Það lagði ég einmitt áherslu á í máli mínu. Það er líka gott í sjálfu sér að krónan fer vel af stað, þau litlu viðskipti sem þar þó eru. En við skulum ekki tala eins og þar sé einhver venjulegur markaður á ferð með þeim gjaldeyrishöftum og takmörkunum á fjármagnshreyfingum sem þar eru og ákaflega litlum viðskiptum við sérstakar aðstæður. Það er hins vegar of snemmt að fagna. Við skulum fara mjög varlega í það og ég minni á að hæstv. forsætisráðherra hefur áður reynst heldur slakur spámaður í svona efnum, hvort sem um er að ræða að botninum sé náð svona af og til eða t.d. þegar hann fagnaði því að krónan styrktist í nokkra daga í aprílmánuði síðastliðnum. En það fór nú á aðra leið eins og kunnugt er, mjög fljótlega. Ég held því að það sé algjörlega ótímabært að gefa sér hvað á eftir að verða með krónuna. En ef það gengur vel án nokkurs (Forseti hringir.) inngrips Seðlabankans þá er auðvitað oft spurning hvort núllleiðin hefði ekki verið fær.