136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[17:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef hlýtt á ræðu hv. þingmanns. Hann slær í og úr um það hvort okkur beri að borga þessa Icesave-reikninga, stundum er hann með því, stundum er hann á móti því o.s.frv. Hann er þó greinilega ekki sammála Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, sem segir í frétt í Vísi 21. nóvember að ekki sé hægt að ætlast til þess að hinn breski skattgreiðandi verði tryggjandi til þrautavara, enda er sá ágæti maður búinn að biðja um að innstæðutryggingarkerfi Evrópu verði endurskoðað.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Getur verið að Íslendingum beri að borga þessa reikninga? Það er í andstöðu við stjórnarskrána af því að það má ekki ráðstafa peningum úr ríkissjóði Íslands nema með fjárlögum. Það gengur ekki að einhver maður leggi peninga inn í Bretlandi eða Hollandi og þar með sé komin ríkistrygging á þeim peningum hjá einhverjum einkabanka.

Hv. þingmaður talaði ekkert um kúgun Evrópusambandsins á Íslendingum, þ.e. að Bretar og Hollendingar fengu Evrópusambandsríkin öll sem eitt til að kúga Íslendinga. Jafnvel hæstv. starfandi utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, hafði sagt að hann kyssti ekki vöndinn en svo kyssti hann samt vöndinn. Nú vil ég spyrja hv. þingmann: Er hann enn þá jafnákafur í að ganga í Evrópusambandið eftir að hafa kynnst því að þeir hafa akkúrat engan skilning eða áhuga á örlögum Íslendinga, hvernig þeim reiðir af? Þeir gera bara kröfur um að Íslendingar skuli borga, borga, borga og þeim kemur ekkert við hvað verður um íslenska þjóð. Það er Evrópusambandið í hnotskurn.