136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

uppbygging og rekstur fráveitna.

187. mál
[17:24]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var aðallega þetta sem ég vildi fá fram en kannski líka hvort staða þessara mála væri slík að það væri þrátt fyrir allt það miklu ólokið að efnislegt tilefni væri til að framlengja þetta. Ég veit ekki hver staðan er nákvæmlega í þessu efni þannig að þetta er bara spurning af minni hálfu hvort staðan kunni að vera sú að þess þurfi, og kannski ekki síst í ljósi þeirra efnahagsaðstæðna sem núna eru að það sé þá a.m.k. einhver hvati fyrir þau sveitarfélög sem enn kunna að eiga eftir að ljúka þessum málum hjá sér að þau dragi ekki úr því heldur sé einhver innibyggður hvati hvað það snertir að ljúka þeim framkvæmdum.

Ég heyri að við ráðherra erum meira og minna sammála um eignarhaldið, það er kannski aðeins blæbrigðamunur á því. Ráðherrann segir að sveitarfélögin þurfi að eiga meiri hluta og ég gerði grein fyrir þeim viðhorfum mínum að ég sé enga sérstaka þörf fyrir að opna á eignarhald fyrir aðra aðila en sveitarfélögin á þessari grunnveitu af því að hún er þess eðlis að hún verður á ábyrgð sveitarfélaganna og það verður engin samkeppni á þessu sviði. Þetta snýst meira um að kannski sé óþarfi að opna á það eins og frumvarpið gerir ráð fyrir en þá umræðu er að sjálfsögðu hægt að taka áfram á vettvangi umhverfisnefndar.