136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

náttúruverndaráætlun 2009–2013.

192. mál
[18:46]
Horfa

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Mig langar í lok þessarar umræðu að fara yfir nokkur atriði sem drepið var á í umræðum þingmanna um þingsályktunartillögu um náttúruverndaráætlun 2009–2013. Tillagan er vissulega mjög fjölbreytileg og hún markar líka ákveðin tímamót í náttúruvernd á Íslandi. Að baki henni liggur ekki bara mikil vinna heldur einnig hugsun sem byggist á faglegri greiningu og þeirri vísindaþekkingu sem við höfum í landinu þó að vissulega þurfi að auka hana og bæta.

Ég viðurkenni hiklaust að fyrsta náttúruverndaráætlunin, sú er rennur skeið sitt á enda nú um áramótin, hefði mátt fá betri framgang en hún gerði. Fyrir því eru örugglega margar ástæður. Við höfum reynt að greina þær í umhverfisráðuneytinu og að einhverju leyti má segja að ástæða þess að svo fór sem fór sé sú að kannski var ekki staðið að undirbúningi eins og best hefði verið að gera. Þegar friðlýsa á svæði þarf að ná samkomulagi við sveitarfélög og landeigendur og það hefur lítið upp á sig að setja fram lista sem líkist kannski frekar óskalista en einhverju öðru. Það er einfaldlega óraunhæft og þess vegna höfum við kannað það nokkuð vandlega við undirbúning þessarar áætlunar hvort sveitarfélögin sem í hlut eiga og þeir landeigendur, ef þeim er til að dreifa, sem í hlut eiga hafi áhuga á því að vinna með okkur að þessum friðlýsingum og við teljum svo vera. Eftir því verður gengið og eins og ég hef áður sagt mun ég gefa hinu háa Alþingi skýrslu um framgang áætlunarinnar. Við munum einnig reyna að móta þannig verklag í samvinnu Náttúrufræðistofnunar, Umhverfisstofnunar og ráðuneytis og þeirra sem í hlut eiga að við getum fylgt því eftir jafnt og þétt hvernig vinnu við áætlunina vindur fram.

Gamla áætlunin er líka undir. Við teljum að þar séu þó nokkur mál það langt komin, og kannski lengst komin Vatnshornsskógur í Skorradal sem vonandi næst að friðlýsa fyrir áramót. Lengi hefur verið unnið að jarðfræðiminjunum við Geysi í Haukadal. Við gætum náð í áföngum Njarðvíkum og Loðmundarfirði og einnig eru Vestmannaeyjar á lokastigi friðlýsingar, mjög jákvæð viðbrögð hjá Vesturbyggð vegna Látrabjargs og Rauðasands, einnig jákvæð viðbrögð varðandi Austara-Eylendið og vonandi kemst það í höfn og við gætum einnig náð áföngum í friðlýsingu Álftaness og Skerjafjarðar fyrir búsvæði fugla. Þetta eru allt svæði sem eru á hinni fyrstu náttúruverndaráætlun og við hyggjumst vinna áfram að. Önnur svæði eru einfaldlega þannig vaxin að við erum því miður ekki viss um að þau náist í höfn og þá verður hreinlega að horfast í augu við að þannig gæti farið en við erum þó a.m.k. reynslunni ríkari. Í höfn eru Vatnajökulsþjóðgarður, eins og þingmenn vita, og Guðlaugstungurnar líka og vonandi verða þau orðin fleiri fyrir áramót og svo höldum við áfram þeirri vinnu.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi Hofsjökul vegna Þjórsárveranna. Ég tel það afar mikilvægt skref sem hér er stigið til verndunar Þjórsárverum, að ljúka því gamla og erfiða deilumáli og koma því þannig fyrir að við getum með sóma sagt að verndun Þjórsárvera sé tryggð. Að því vil ég standa og ég veit að það vill meiri hluti þingheims. Ég á ekki von á öðru en það verði með þeim hætti samkvæmt þessari tillögu.

Það er líka sjálfsagt að skoða jökulhettu Hofsjökuls og tengja yfir í Guðlaugstungurnar eins og minnst var á. Það þarf samt að passa í þessu ferli að óbyggðanefndin og þjóðlendumálin eru enn óútkljáð. Ekki er búið að fara um allt landið eins og þar segir og líklega væri betra að bíða niðurstöðu á því svæði. Það verður að segjast eins og er, eins og ég hef reyndar áður sagt opinberlega, að ekki hefur alltaf verið einfalt að koma í kjölfar óbyggðanefndar og tillagna um þjóðlendur þegar við komum síðan frá umhverfisráðuneyti og stofnunum þess og biðjum jafnframt þessa sömu landeigendur um að leggja til land hvort heldur er í þjóðgarð eða til friðlýsingar. Það á auðvitað að vera eftirsóknarvert, eins og hv. formaður umhverfisnefndar sagði í ræðu sinni, að friðlýsa svæði og spildur eða plöntur, dýr og önnur búsvæði og vistkerfi. Ákveðin gæði eiga að vera falin í því sem eru eftirsóknarverð og við þurfum að koma því fyrir að það verði þannig.

Kannski gefst ekki mikill tími til að fara yfir samspil og samþættingu náttúruverndaráætlunar og rammaáætlunar. Náttúruverndaráætlunin sem slík, hugmyndafræði hennar og hvernig hún er hugsuð, liggur algerlega skýrt fyrir. Verkefnisstjórn rammaáætlunar er að störfum. Hún mun skila á næsta ári. Við vitum ekki nákvæmlega hverjar þær tillögur verða en mjög líklegt er að þær verði í þremur meginþáttum, þ.e. það sem megi nýta með verndun, það sem megi nýta með virkjun og síðan einhverjar tillögur þar á milli sem e.t.v. þarf að rannsaka betur eða láta bíða eftir því sem upplýsingar liggja fyrir. Þetta færist þá með tíð og tíma inn í tvær heildstæðar áætlanir og ég tel einboðið að form rammaáætlunarinnar — það er líka hluti af þeirri umræðu sem þarf að taka þar — verði einhvers konar skipulagsform. Þetta eru allt skipulagsáætlanir sem þurfa að vinna saman og þar má ekki hvað rekast á annars horn. Náttúruverndaráætlun og rammaáætlun eiga raunar að vera eins og tvær hliðar á sama peningnum.

Ég ætla ekki að reyna að standa hér og neita því að þessi þingsályktunartillaga sé seint fram komin. Hún er það en ég vænti þess að hv. umhverfisnefnd taki sér þann tíma sem hún þarf til að fjalla um hana á næstu vikum og á nýju ári þó við séum þá komin inn á fimm ára tímabil nýrrar náttúruverndaráætlunar. Ég hygg að það sé betra og hún taki þá bara gildi þegar komið er inn á það tímabil og umfjöllunin sé vönduð — það er vissulega rétt eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir benti á að ekki hefur verið kleift við þessar aðstæður að standa að almennri kynningu eins og við héldum að við gætum. Það setur þeim mun meiri þrýsting á eða gerir meiri kröfur til nefndarinnar að finna og kalla til umsagnaraðila og koma þessari tillögu í almenna umræðu. Ég mun gera það sem ég get til þess að það takist og er boðin og búin til að koma til viðræðu í nefndinni og svara þar spurningum og annað slíkt.

Það var nefnt að það vantaði ljósmyndir. Já, ég er sammála því, það hefði verið gaman að geta prentað þingskjal með litmyndum og ljósmyndum en það er því miður ekki hægt. Slíkt gæfi tillögu með þessu efni bæði betra upplýsinga- og fræðigildi fyrir allan almenning af því að þessi tillaga er til skoðunar og ég hvet ekki bara þingmenn heldur alla sem áhuga hafa á náttúruvernd til að lesa hana og kynna sér á vef þingsins.

Það er mikilvægt að styrkja Vatnajökulsþjóðgarð. Já, vissulega og við höldum því áfram og það er stórt og mikið verkefni sem við erum rétt að byrja á og ætlum að vinna áfram af fullum krafti á uppbyggingartímanum, við ætlum okkur næstu fimm árin eða svo. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að Vatnajökulsþjóðgarður geti orðið náttúruvernd á Íslandi mikil lyftistöng og einnig sýnt fólki í verki að náttúruvernd og atvinnusköpun út um landið fer saman. Þjóðgarður sem Vatnajökulsþjóðgarður getur skapað mýmörg tækifæri fyrir sveitarfélögin og fyrir fólk um allt land.