136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

málefni Ríkisútvarpsins.

[14:16]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að hefja þessar umræður. Í mínum huga þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi Ríkisútvarpsins. Ekki bara til að halda uppi upplýstri umræðu heldur einnig sem dýrmætt öryggistæki fyrir land og þjóð, til sjávar og sveita.

Fyrir einu og hálfu ári var ákveðið að breyta um hlutafélagaform á Ríkisútvarpinu. Því fylgdi loforð um að Ríkisútvarpið yrði eflt og ég held að endurskoða verði formið í ljósi nýjustu atburða. Þannig er með öll mannanna verk að þau krefjast endurskoðunar.

Í byrjun ágúst var ljóst að ekki ætti að standa við það loforð. Ríkissjóður hefur á engan hátt komið með aukið fjármagn auk þess sem ekki hefur verið staðið við þjónustusamninga við Ríkisútvarpið ohf. og það er eitthvað sem ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir verða að bera ábyrgð á. Ég harmaði það að niðurskurðurinn í sumar bitnaði hlutfallslega meira á svæðisstöðvum úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna komu fréttir um að leggja ætti svæðisstöðvarnar niður flatt upp á marga. Vissulega var jákvætt að hugsanlega eigi ekki að leggja þær niður en ég vil taka fram að uppsagnirnar hafa ekki verið dregnar til baka og þá má segja að svæðisstöðvunum sé í rauninni gert ókleift að sinna því mikilvæga hlutverki sem þeim er ætlað að sinna.

Í mínum huga hefur aldrei verið mikilvægara að reka öflugar fréttastofur um allt land sem sinna því hlutverki, sem okkur er svo mikilvægt, að halda uppi öryggissjónarmiðum og öflugri frjálsri fjölmiðlaumfjöllun.