136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[14:42]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Það er rétt, ég skrifaði undir nefndarálit meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar með fyrirvara. Til þeirra breytinga sem ég boðaði vannst ekki tími í fyrsta lagi fyrir þær sakir að það er allsendis óljóst hvað mun felast í reglugerðarheimildum sem hæstv. sjávarútvegsráðherra er veitt með frumvarpinu. Ég óskaði eftir að það yrði kynnt, að þær yrðu lagðar fram að minnsta kosti í drögum þannig að maður sæi fyrir endann á því hvort frumvarpið næði þeim tilgangi sem að er stefnt.

Ég vek líka athygli á því og gagnrýni það að boðað var til fundar um málið og gestir kallaðir fyrir nefndina á sama tíma og allsherjarnefnd fundaði og þar var ég algerlega bundinn en daginn eftir var svo fundarfall í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. En ég áskil mér rétt til að setja þessa tillögu fram síðar í ljósi þeirra reglugerða sem verða settar í kjölfar þess að frumvarpið verður að lögum.

Við höfum reyndar lagt fram slíkar þingsályktunartillögur með ítarlegum greinargerðum, síðast á löggjafarþingi 2007–2008, þskj. 38, 38. mál, og ég vísa í ítarlegan rökstuðning þar.

Þá að frumvarpinu. Þar er gerð sú tillaga í 1. gr. að 5. gr. laga nr. 57/1996 verði breytt og þar er ákvæði um að öllum afla skuli landað innan lands og hann veginn í innlendri höfn. Þetta er góð og gild regla en síðan er hún holuð út með heimildum til ráðherra þannig að í raun og veru getur þessi regla snúist í andstæðu sína. Það veit enginn hversu langt hæstv. ráðherra muni ganga en í 2. mgr. er ráðherra heimilað að veita heimild til þess að ísfiski sé landað í erlendum höfnum eða hann fluttur úr landi án þess að hann sé endanlega vigtaður. Það tel ég óforsvaranlegt, sérstaklega í ljósi þess, herra forseti, að afli sem er fluttur úr landi er nánast undantekningarlaust fluttur út í gámum. Honum er landað í innlendri höfn og síðan er hann fluttur út í gámum. Síðan er aftur heimild um að flytja hann út óvigtaðan og svo er ákvæði um lágmarksgjald sem ég tel ekki eðlilegt í þessu frumvarpi. Sem sé, heimildir ráðherra til að veita undanþágur eru allt of rúmar og geta orðið þversögn við 1. gr. ef gengið er of langt.

Einn megingalli á þessu frumvarpi sem ég nefndi við ráðuneytisstjóra ráðuneytisins er að hér fer fram það sem heitir framsal á löggjafarvaldi. Ég taldi mun réttara að ákvæðin um undanþágurnar yrðu settar í lög, alla vega klár beinagrind að því þannig að þingmenn sæju fyrir sér hvað þessar undanþáguheimildir þýddu, það yrði nákvæmlega listað. Þetta er sem sagt framsal á löggjafarvaldi, opinn tékki á undanþágur sem ég á mjög erfitt með að sætta mig við, bæði gagnvart löggjafarstarfinu og ekki síður því að það er svo afar brýnt að tryggja fullvinnsluna hér á landi.

Ég tel algerlega nauðsynlegt að tryggja að öllum afla sé landað innan lands og hann sé veginn hér á landi. Ef heimila á útflutning á fiski og setja fisk á uppboðsmarkað er ekkert því til fyrirstöðu, ég ítreka það, að hann sé vigtaður innan lands. Það þarf sem sagt að tryggja aðgengi fiskverkenda án útgerðar að öllum fiski sem veiddur er hér við land. Tækifæri til að bjóða í aflann verða að vera jöfn, það þarf að tryggja. Þetta er enn brýnna í dag, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, vegna þess að nú eru þessir gríðarlega erfiðu tímar atvinnuleysis sem mun fara stigvaxandi og því erum við þá að flytja út fisk frá Íslandi sem auðvelt er að vinna hér á landi, sérstaklega í hinum smærri dreifðu sjávarbyggðum.

Það kemur líka sérkennilega fyrir sjónir, herra forseti, að við skulum þá ætla okkur að flytja fisk út frá atvinnulitlu Íslandi til þjóðar eins og Bretlands sem enn beitir okkur hryðjuverkalögum. Af hverju tökum við ekki slaginn við Breta, Breta sem beita okkur hryðjuverkalögum, gera hreina efnahagslega árás á landið og brjóta að mínu mati gegn samningum sem þeir eru bundnir af með aðild sinni að NATO? Það liggur líka fyrir að eftir að útflutningsálag var fellt niður á óvigtuðum óunnum fiski hefur útflutningur aukist verulega með mjög slæmum afleiðingum fyrir íslenskt fiskvinnslufólk. Ég hygg að útflutningurinn nálgist, og hæstv. ráðherra leiðréttir mig ef ég fer með rangar tölur, 56 þúsund tonn á ársgrundvelli, um eða yfir þá tölu. Það er þvílík atvinna sem fólgin er í vinnslu þessa fisks innan lands að það hálfa væri nóg.

Undir þau sjónarmið sem ég hef hér flutt fram taka Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda, SFÚ, og segja orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Í frumvarpið vantar mikilvæga skilmála sem með réttu ætti að lögbinda til þess að lögin geti þjónað yfirlýstum tilgangi sínum um bætt aðgengi íslenskrar fiskvinnslu að óunnu hráefni, sem afar mikilvægt er að nái fram að ganga.

Því er brýnt að bætt verði úr þeim ágöllum þannig að í lögunum verði skýr ákvæði um framkvæmd þeirra. Að mati SFÚ sé ekki æskilegt að setja svo mikilvæg framkvæmdaatriði í reglugerð, eins og gert er ráð fyrir, heldur ættu þau að vera bundin í lögunum sjálfum.

Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda leggjast því gegn ofangreindu frumvarpi eins og það nú liggur fyrir.“

Sömu sjónarmið reifar Jón Steinn Elíasson, formaður þessara samtaka, í bréfi til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, dags. 22. nóvember 2008. Það er auðvitað fullkomlega rétt í þeirri stöðu hremminga sem við erum í og mjög vaxandi atvinnuleysi þar sem afleiðingar kreppunnar eru því miður enn þá að verulegu leyti í pípunum, og þegar við stöndum frammi fyrir hugsanlegum landflótta, sem ég vona að verði alls ekki, að þarna er leið til að skapa atvinnu og koma í veg fyrir landflótta og þarna er líka leið til að okkar hæfileikaríka fólk sem er að missa atvinnu sína komist að til fullvinnslu þessara vara til að gera þær enn verðmætari en þær eru í dag.

Ég hefði kosið og óska eftir því að málið fari til nefndar milli 2. og 3. umr. og fyrir lokaumræðu, 3. umr., liggi fyrir hvernig hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hyggst beita undanþáguheimildum sem frumvarpið heimilar honum. Útfærslan á undanþágunum verður að liggja fyrir. Ég skora að endingu á hæstv. ráðherra, sem hefur beðið um orðið, að hann upplýsi þingið til hlítar hversu víðtækar undanþágur hann hyggst heimila, að það komi skýrt og skorinort fram af hálfu hæstv. ráðherra, sem ég veit að víkur sér ekki undan, hversu víðtækar undanþágur hann hyggst heimila.