136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[18:22]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Við styðjum þetta frumvarp almennt séð og jafnframt að það fái skjóta afgreiðslu á þingi. Það hefur tekið ágætum breytingum í meðförum allsherjarnefndar, m.a. breytingum sem ég mælti fyrir í 1. umr. um útvíkkun á rannsóknarsviði hins sérstaka saksóknara sem taki til kjölfars setningar neyðarlaganna um útvíkkun á uppljóstraraákvæðinu eins og það var í frumvarpinu. Um frumvarpið hefur verið góð samstaða og gott vinnulag í allsherjarnefnd.

Ég skrifa undir þetta álit með fyrirvara sem lýtur að því, eins og ég nefndi í ræðu við 1. umr., að ég er þeirrar skoðunar að sérstakt lagafrumvarp hafi í raun og veru óþarft, að unnt hafi verið að skipa sérstakan saksóknara strax. Það eru þekkt dæmi um að skipaðir hafi verið lögreglustjórar, saksóknarar og fleiri aðilar með skipunarbréfi frá dómsmálaráðherra. Ég gerði líka athugasemdir við að það hefði átt að fara út í þessa rannsókn strax en því var drepið á dreif í einn og hálfan mánuð með því að skipa ríkissaksóknara að leita að grunsemdum. Ég taldi óþarft að bíða með það, rannsóknin hefði getað farið strax af stað.

Það er ákvæði um að dómsmálaráðherra skipi hinn sérstaka saksóknara. Ég verð að vekja athygli á því að í greinargerð með frumvarpinu lít ég svo á að dómsmálaráðherra hafi nánast skrifað sig frá því verkefni og gert sig vanhæfan með því að segja, með leyfi frú forseta:

„Um nokkurt árabil hefur markvisst verið reynt að grafa undan trausti í garð þeirra sem unnið hafa ötullega að rannsókn og ákærum vegna efnahagsbrota. Til þessarar hörðu atlögu var stofnað vegna rannsókna og ákæru gegn einu af viðskiptaveldum landsins sem berst nú fyrir lífi sínu. Ákæruvald og lögregla hafa að sjálfsögðu staðið þessa hrinu af sér.“

Það blasir nú einhvern veginn við að eigendur þessa nefnda viðskiptaveldis eða þeir sem koma að því muni hugsanlega verða undir í þeirri rannsókn sem mælt er fyrir um þannig að ég sé ekki betur en annar ráðherra verði að taka að sér ad hoc að skipa þennan sérstaka saksóknara. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur hins vegar haft uppi góð orð á fundi allsherjarnefndar um að samstöðu um skipanina verði leitað þannig að tryggt verði, sem er langbrýnast í þessu máli, að hinn sérstaki saksóknari njóti óskoraðs trausts almennings eins og hv. formaður allsherjarnefndar Birgir Ármannsson gerði grein fyrir með því að lesa úr áliti neðst á bls. 4.

Ég nefndi áðan að ákvæðið um uppljóstrara hafi verið útvíkkað sem ég taldi nauðsynlegt ef á annan borð yrði farin sú leið sem er af hálfu lögmanna, lögfræðinga og réttarfarssérfræðinga, umdeild og menn hafa uppi efasemdir um en heimildin er, eins og kom fram hjá hv. formanni allsherjarnefndar, mjög þröng. Ákvæðið er tímabundið og aðstæður afar sérstakar.

Annar fyrirvari minn lýtur að því að ákveðnar rannsóknir sem svo innherjaviðskipti falla undir forræði Fjármálaeftirlitsins. Í kjölfar setningar neyðarlaganna voru skipaðar skilanefndir við gömlu bankana sem starfa í umboði Fjármálaeftirlitsins, þ.e. komið geta upp tilvik um rannsóknir eftir setningu neyðarlaganna vegna gömlu bankanna sem Fjármálaeftirlitið rekur og á síðan að hafa eftirlit með. Það taldi ég og tel ófært. Það hefur að vísu verið sett ákvæði um samvinnu og fleira og um þetta er umfjöllun í áliti allsherjarnefndar á miðri bls. 2. Ég ætla ekki að endurtaka það en ég tel að það hefði verið farsælla að aftengja Fjármálaeftirlitið með öllu, bæði fyrir og eftir setningu neyðarlaganna, með bráðabirgðaákvæði sem ég lagði til. Það felur í sér að það kæruforræði sem Fjármálaeftirlitið hefur falli niður gagnvart þessari sérstöku rannsókn og saksóknara. Það var ekki talið fært að fara þá leið þó að skilningur hefði verið innan nefndarinnar á þessum sjónarmiðum sem von er. En þetta mun eðlilega leiða til þess að komi upp innherjaviðskipti eða annað sem er á forræði Fjármálaeftirlitsins blasir við að það verður að víkja vegna stöðu þess í dag í kjölfar neyðarlaganna. Skipa verður sérstakt eftirlit í öllum málum sem rata inn á borð Fjármálaeftirlitsins til rannsóknar samkvæmt sérákvæðum sem gilda um Fjármálaeftirlitið og fjármálafyrirtækin.

Ég hefði líka kosið og talið nauðsynlegt að starfstímabil þessa sérstaka saksóknara yrði lengra. Því var breytt að ýmsu leyti og var gerð sú þarfa breyting að það er Alþingi sem ákvarðar hvort starfstími hins sérstaka saksóknara verði styttur eða lengdur. En ég geri ekki ágreining um það atriði en tel að farsælla hefði verið að hafa starfstíma hins sérstaka saksóknara lengri.