136. löggjafarþing — 48. fundur,  10. des. 2008.

GSM-samband.

135. mál
[14:41]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég skildi nú ekki alveg þennan pirring í seinni ræðu hv. þingmanns. Það er ekkert útilokað að þetta takist fyrir áramót ef veður verður gott. Eins og ég sagði áðan er búið að kveikja á sendum á Vestfjörðum þó að þeir hafi ekki verið teknir í notkun formlega. Og víða um land, t.d. á Vopnafjarðarheiði er það búið, og verið að vinna að þessu af fullum krafti.

Ég átti nýlega samtal við forstjóra Vodafone. Ég er sæmilega bjartsýnn á að þetta gangi allt eftir, bara sæmilega bjartsýnn á það. Eins og ég segi þá ræður veðrið miklu vegna þess að oft og tíðum er verið að vinna uppi á heiðum.

Það skyldi þó ekki vera að kaupum á tækjum hafi seinkað örlítið — ég vona eiginlega að því hafi seinkað, það kemur þó ef til vill niður á verkinu. Ég vona að menn hafi ekki verið að kaupa tæki og tól í þetta verkefni á gengisvísitölunni 250 eða hvað hún var og hefur verið frá bankahruninu mikla og þeim efnahagsörðugleikum sem dunið hafa yfir. Vel má vera að svo hafi verið.

En þrátt fyrir það standa fyrirtækin sig ákaflega vel við þessa GSM-væðingu 2, og ég ítreka að nokkuð góðar líkur eru á að þetta verði búið fyrir áramót. Ég vona að hv. þingmaður verði ánægður með það og ég held að ég hafi ekki verið neitt djarfur að segja frá þeim áformum sem voru. Vonandi ganga þau eftir og hv. þingmaður taki þá gleði sína á ný hvað það varðar að ég hafi verið svo djarfur að nefna daginn 31. desember en ekki 15. janúar eða svoleiðis.

Varðandi tal hv. þingmanns um háhraðann ætla ég ekki að ræða nú, virðulegi forseti, vegna þess að ég er að fara að svara fyrirspurn frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur sem ber það verkefni fyrir brjósti og ætlar að spyrja mig um það hér á eftir.