136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

218. mál
[13:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði aðeins að ræða það sem hv. þingmaður nefndi um hlutverk Ríkisútvarpsins og hvort það væri hlutverk Ríkisútvarpsins að viðhalda afþreyingarútvarpsstöð og sýna afþreyingarefni í sjónvarpi. Nú held ég að flestir hv. þingmenn séu sammála um að ef það á að vera ríkisútvarp hafi það óneitanlega menningarhlutverki að sinna.

Eins og kom fram á fundi menntamálanefndar í vikunni eru útgjöld vegna erlends efnis í sjónvarpi hjá Ríkisútvarpinu um það bil 7% þannig að það er tiltölulega lágur hluti af kostnaði við rekstur RÚV. Á móti kemur hins vegar að það er að sjálfsögðu verið að sýna það sem kalla má innlent afþreyingarefni. Ég reikna með að hv. þingmaður telji Rás 2 vera afþreyingarútvarpsstöðina. Mér finnst þetta vera erfið skilgreining, þ.e. hver á að taka sér það skilgreiningarvald í hönd hvar menningunni sleppir og hvar afþreyingin tekur við. Við gætum tekið Rás 2 sem dæmi um þá útvarpsstöð sem sinnir best íslenskri menningu, því hún er sú stöð sem spilar mesta íslenska tónlist og hefur sinnt mestri nýsköpun í íslenskri tónlistarmenningu þannig að þar er ákveðið menningarhlutverk á ferð. Sama má segja um íslenskt afþreyingarefni sem um leið getur verið menningarefni. Mig langar því aðeins að heyra sjónarmið hv. þingmanns um hvernig eigi að skilgreina muninn á afþreyingu og menningu. Sú skilgreining hefur reynst mörgum erfið í gegnum tíðina og kannski vandséð að Ríkisútvarpið geti haldið sig frá afþreyingu.